Jón Gísli og Skagastrákarnir úr leik í Evrópu

Nokkurra ára gömul mynd frá Króksmóti. Tveir gaurar á myndinni spiluðu á Pride Park í gærkvöldi, Jón Gísli sem er í svörtum jakka og Borgnesingurinn Brynjar Snær Pálsson sem er þriðji frá vinstri í alötustu röð. MYND: GJ
Nokkurra ára gömul mynd frá Króksmóti. Tveir gaurar á myndinni spiluðu á Pride Park í gærkvöldi, Jón Gísli sem er í svörtum jakka og Borgnesingurinn Brynjar Snær Pálsson sem er þriðji frá vinstri í alötustu röð. MYND: GJ

Síðustu tvö sumur hefur sameinað lið ÍA, Kára og Skallagríms orðið Íslandsmeistari í knattspynu í 2. flokki karla. Liðinu bauðst í sumar að taka þátt Unglingadeild UEFA og hefur liðið spilað nokkra leiki í þeirri keppni en féll loks úr leik í gær þegar þeir mættu liði Englandsmeistaranna, Derby County, á Pride Park. Með liðinu spilar Króksarinn Jón Gísli Eyland Gíslason.

Í fyrstu umferð mættu strákarnir liði Levadia Tallin frá Eistlandi og gjörsigruðu andstæðingana, heimaleikurinn fór 4-0 en í Tallinn sigruðu þeir 1-12. Ljóst var að Derby County yrði talsvert erfiðari andstæðingur og fór svo að Englendingarnir unnu fyrri leikinn 1-2 og í gærkvöldi var spilað í Derby á aðalvelli félagsins, Pride Park, og reyndust Englendingarnir klassa betri og sigruðu 4-1.

„Mín fyrstu viðbrögð eru svekkelsi. Við byrjuðum leikinn mjög illa og vorum á hælunum, en það er líka hægt að segja það að þeir eru með gott lið og góða leikmenn hér og þar," sagði Jón Gísli í viðtali við Fótbolti.net að leik loknum. „Þeir eru með góða, sterka leikmenn í öllum stöðum og kannski voru þeir of stór biti fyrir okkur. Við getum ekki verið annað en stoltir af þessu, að spila á svona á velli og spila á móti svona liði. Þetta eru forréttindi og við eigum að vera stoltir. Það er alltaf gaman að spila á svona völlum, grasið gott og blautt.“

Þá er gefið í skyn í fréttinni að Jón Gísli gæti mögulega verið á leið út í atvinnumennsku en hann lék með liði ÍA í Pepsi-deildinni í sumar og stóð sig með miklum ágætum. „Við sjáum til,“ sagði kappinn aðspurður um þau mál. 

Jón Gísli hefur að mestu verið notaður í stöðu hægri bakvarðar með ÍA, þó hann hafi líka spreytt sig á stöðu miðvarðar eða á miðjunni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir