KA menn höfðu betur gegn lánlausum Tindastólsmönnum
Tindastóll og KA áttust við í 1. deild karla í knattspyrnu á Sauðárkróksvelli í kvöld. Varnarleikur Stólanna hefur ekki verið upp á marga fiska að undanförnu en strákarnir stóðu vaktina betur í kvöld en urðu engu að síður að sætta sig við 2-0 tap gegn gestunum frá Akureyri.
Útlitið var reyndar ekki gott í upphafi því áhorfendur voru varla búnir að finna sér sæti í stúkunni þegar KA-menn náðu ágætri sókn, fóru upp vinstri kant og fengu góðan tíma til að koma sendingu fyrir markið og þar var Buickiji einn og óvaldaður á markteig og skallaði af öryggi í markið. Gestirnir voru sprækari fyrstu 20 mínúturnar en lið Tindastóls komst vel inn í leikinn þegar á leið, án þess þó að skapa sér góð færi. Þeir fengu þó aukaspyrnu á góðum stað en Fannar Kolbeins setti boltann í vegginn. Stólarnir voru vel inni í leiknum þegar flautað var til leikhlés.
Leikurinn fór rólega af stað í síðari hálfleik en eftir um 10 mínútna leik fékk Arnar Skúli gult spjald fyrir að því er virtist afar litlar sakir. Stólarnir reyndu að sækja og spiluðu á köflum ágætlega en liðið er ansi bitlaust fram á við og KA menn stíluðu inn á að vinna boltann á miðjunni og sækja hratt. Það gerðist einmitt á 59. mínútu en þá tapaði Benni boltanum og gestirnir geystust í sókn, stungu boltanum inn fyrir vörn Tindastóls á Ævar Inga Jóhannesson sem gerði engin mistök og lagði boltann í markið hjá nýjum amerískum markverði Tindastóls, Terrence Dietrich, sem stóð sig annars vel. Á 67. mínútu urðu síðan stimpingar milli 8-10 leikmanna inni á vítateig Tindastóls og í kjölfarið fékk einn leikmaður úr hvoru liði að líta gula spjaldið og því miður fyrir Stólana þá varð Arnar Skúli fyrir valinu hjá dómaranum og leit því sitt annað gula spjald og sá rautt í kjölfarið. Vakti þetta litla kátínu leikmanna og áhangenda Tindastóls sem vildu meina að Arnar Skúli hafi hvergi komið nærri. Dómarinn stóð að sjálfsögðu fastur á sínu en eftir þetta fengu gestirnir meira pláss en þeim tókst ekki að bæta við marki og lokatölur 0-2.
Enn eitt tapið staðreynd hjá Tindastóli en frammistaðan heilsteyptari en í síðustu leikjum og mistökin færri. Markvörðurinn nýji stjórnaði vörninni ágætlega og var traustur í teignum. Stólarnir losuðu sig við þrjá erlenda leikmenn áður en leikmannaglugginn lokaði en ekki virtist það veikja liðið mikið í kvöld. Fyrir vikið fá fleiri heimamenn sénsinn sem er að sjálfsögðu jákvætt.