Kallað eftir stuðningi við uppbyggingu í kjölfar Covid-19 í Húnaþingi vestra

Frá Hvammstanga. Mynd:FE
Frá Hvammstanga. Mynd:FE

Húnaþing vestra hefur orðið illa fyrir barðinu á kórónuveirufaraldrinum og eru neikvæð áhrif á afkomu sveitarfélagsins vegna hans nú metin á 88,3 milljónir króna. Vega þar þyngst þeir sex dagar í mars sem allir íbúar voru í sóttkví og nánast öllu lokað í sveitarfélaginu. Þetta kemur farm í bókun sem samþykkt var á fundi byggðarráðs í gær.

Dagana 21-27. mars voru allir íbúar sveitarfélagsins látnir sæta úrvinnslusóttkví meðan unnið var að smitrakningu. Þessa daga mátti aðeins einn einstaklingur af hverju heimili yfirgefa heimilið til að afla aðfanga og lá öll starfsemi í sveitarfélaginu niðri utan sú sem telst lífsnauðsynleg, s.s. hjúkrunarheimili, sjúkrahús og verslun með matvæli og eldsneyti. Í bókuninni kemur fram að sá kostnaður sem sveitarfélagið varð fyrir meðan á úrvinnslusóttkví stóð er 14,6 milljónir króna, útlagður kostnaður og tekjutap.

Áhrifa faraldursins gætir víða í sveitarfélaginu, mest hjá þeim fyrirtækjum sem starfa í ferðaþjónustu og tengdum greinum og einnig ýmiss konar þjónustustarfsemi sem sætt hefur takmörkunum og lokunum á árinu.

Þá segir í bókun byggðarráðs:
„Í lok júní var atvinnuleysi í Húnaþingi vestra 5%  og er spáð 5,8%  í lok árs 2020 og hefur ekki verið meira síðan í upphafi árs 2010.  Byggðarráð lýsir áhyggjum sínum yfir vaxandi atvinnuleysi í Húnaþingi vestra og kallar eftir auknum stuðningi við nýsköpun, atvinnuuppbyggingu og fjölgun opinberra starfa í sveitarfélaginu.  Einnig lýsir byggðarráð áhyggjum sínum af miklum kostnaði og tekjutapi sem sveitarfélagið hefur orðið fyrir á árinu vegna áhrifa COVID-19,  sérstaklega hvað varðar kostnað vegna úrvinnslusóttkvíar.  Byggðarráð hvetur ríkisvaldið að grípa til sértækra aðgerða fyrir þau sveitarfélög sem sætt hafa úrvinnslusóttkví. Þá kallar byggðarráð eftir auknu fjárframlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að mæta skertum framlögum sjóðsins og því tekjutapi sem sveitarfélög í landinu hafa orðið fyrir vegna  COVID-19.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir