Karlakórinn Heimir syngur upp í vindinn

Þrátt fyrir það leiðindaveður sem herjar á landsmenn norðan heiða þessar stundirnar blæs Karlakórinn Heimir enn fastar á móti Kára og ætlar ótrauður að halda sína þrettándahátíð á laugardagskvöldinu 8. janúar í Miðgarði.

Efnisskráin verður fjölbreytt að vanda þar sem fluttar verða gamlar og nýjar karlakóraperlur og verður kórinn í aðalhlutverki að þessu sinni. Þau tímamót eru hjá kórnum að stjórnandinn  Helga Rós Indriðadóttir heldur uppi aga að þessu sinni við undirspil píanóleikarans Thomas R. Higgerson.

Jón Þorsteinn Reynisson mun einnig leika með kórnum en einnig ætlar hann að fremja einleik á harmoniku eins og honum er einum lagið. Ræðumaður verður hinn kunni Skagfirðingavinur  Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra og hefur hann eflaust frá ýmsu fróðlegu og skemmtilegu að segja.

Að þrettándahátíðinni lokinni verður dúndur þrettándaball í Miðgarði með hinum eina og sanna Geirmundi Valtýssyni.

Miðaverð: Tónleikar 3.000,- Ball 2.000,-

18 ára aldurstakmark.

Fleiri fréttir