Kaupstaðarlyktin af okkur flæddi um salinn - Haukur Reynisson
Hver er maðurinn? Haukur Freyr Reynisson, oftast kallaður Haukur í Bæ hér á árum áður.
Hverra manna ertu? Sonur Reynis Gíslasonar og Svanhvítar Gísladóttur
Árgangur? Er af hinum stórgóða 1971 árgangi sem eldist jafn vel og gott eðalvín.
Hvar elur þú manninn í dag? Er fyrrverandi brottfloginn Skagfirðingur og el minn mann á Hofsósi (Kristján manstu ekki þegar þú heimsóttir mig í nóvember hehe).
Fjölskylduhagir? Er hamingjusamlega giftur Línu Dögg Halldórsdóttur grunnskólakennara og flóttakonu frá Akureyri.
Afkomendur? Eigum saman þrjú yndisleg börn. Reynir Freyr fæddur 1999, Kormákur Helgi fæddur 2003 og Hrafnhildur Karen fædd 2004.
Helstu áhugamál? Fjölskyldan, tónlist, lestur góðra bóka, hjálparstörf og ferðalög. (fegurðardrottningarsvar)
Við hvað starfar þú? Ég er menntaður húsasmiður og starfa við fagið hjá hinu stórgóða fyrirtæki Friðriki Jónssyni ehf. Einnig starfa ég sem yfirhringjari í Hofsóskirkju.
Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.
Heima er.... best þar sem ég fleygi húfunni minni.
Það er gaman.... þegar það er gaman!
Ég man þá daga er...... svali kostaði 3,50 og maður fékk óhemju mikið bland í poka fyrir 50 kall. Og símhringingin í Bæ var tvær langar!!
Ein gömul og góð sönn saga.... Tek sénsinn á að þessi frásögn sleppi af því að langt er um liðið.... Eitt sinn tóku ég og ónefndur góður félagi minn, og söngvari, þátt í leikriti sem leikfélag Sauðárkróks sett upp og heitir Sumarið fyrir stríð, Sýningar gengu mjög vel og fór svo að leikritið var valið sem áhugamannafélagssýningin hjá Þjóðleikhúsinu það árið. Leikfélagar kættust mjög við það og var stefnan sett á Reykjavík, á sama tíma vorum við iðnir við spilerí og söng og hittist þannig á að bandið okkar var bókað á Húsavík kvöldið fyrir sýningu. Var nú tekið af okkur loforð um að vera spakir og ná góðum nætursvefni eftir ball því mikið lá við að gera góða sýningu kvöldið eftir. Ekkert mál sögðum við, við tökum bara fyrstu vél suður og mætum beint í leikhús. Nú til að gera langa sögu stutta þá gleymdist loforðið óvart, ballið var gott og eitthvað lítið um svefninn, en við náðum þó fluginu suður og mættum glaðir og reifir á æfingu. En augnaráðið var ekki eins blítt á meðleikurum og leikstjóra þegar kaupstaðarlyktin af okkur flæddi um salinn...Allt reddaðist þó að lokum eftir að við náðum örlitlum bjútíblund fyrir kvöldsýninguna...en þetta mundi líklega teljast til bernskubreka í dag!
Spurt frá síðasta viðmælanda.................... Heldur þú að það gæti verið grundvöllur til að byggja hótel á Hofsósi með 7 manna herbergjum með partýaðstöðu?
Svar : Líklega ekki eins og staðan er í dag en þegar góðærið var í hámarki hefði það átt talsverða möguleika. Reyndar kannaði ég markaðinn (eins og Kristján Gísla og fleiri vita) og leitaði ég eftir slíkum hótelum á Reykjavíkursvæðinu árið 1995 (eða seint á síðustu öld) án árangurs og hefði betur útbúið slíka aðstöðu og leigt út fyrir partýþyrstan lýðinn!
Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?
Nafn............. Kjartan Hallur Grétarsson
Spurningin er: Fer ekki að styttast í endurkomu Don Spirit?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.