Kennt í gegnum Teams forritið hjá FNV
Sú ákvörðun yfirvalda að framhaldsskólar landsins skuli loka frá með deginum í dag meðan samkomubann er í gildi kallar á breyttar aðferðir í skólahaldi með nútíma tölvutækni. Á heimasíðu FNV segir að það vilji svo til að kennarar við FNV hafi áralanga reynslu af kennslu í gegnum allskyns fjarfundatækni sem skólinn hyggst nýta á meðan á lokun framhaldsskóla stendur.
Reglulegt skólahald með fjarfundasniði hefst á morgun, þriðjudaginn 17. mars kl. 8:00, og munu nemendur mæta eins og áður í kennslustundir, en að þessu sinni heima hjá sér. Allir nemendur skólans hafa aðgang að Office 365 sem þeir geta hlaðið niður á tölvur sínar eða í snjallsíma.
„Kennarar skólans í bóklegum greinum munu mæta eins og áður í kennslustundir samkvæmt stundatöflu, setjast við tölvuna og hefja kennslu í gegnum Teams forritið. Nemendurnir setjast við sínar tölvur eða snjallsíma heima hjá sér og opna Teams forritið og mæta í viðkomandi kennslustund. Kennararnir munu styðjast við Moodle og INNU eins og áður. Eini munurinn er sá að nemandinn situr heima og kennarinn í skólanum,“ segir á Fnv.is en merkt verður við skólasókn eins og áður og sömu kröfur gerðar til skólasóknar og verkefnaskila eins og verið hefur.
Sjá nánar HÉR