Ketilbjöllur og jóga á haustönn
Tveir nýjir íþróttaáfangar verða í boði á haustönn 2014 hjá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Á vef skólans kemur fram að í vetur mun nemendum gefast færi á að fá kennslu í bæði jóga og ketilbjöllum.
ÍÞR 1K12 - Ketilbjöllur:
Unnið er með ketilbjöllur og eigin líkamsþyngd í fjölbreyttum tímum sem reyna á styrk, úthald og þrautseigju. Farið verður yfir helstu grunnæfingar í ketilbjöllum, s.s clean, swing, press, snatch, squat og flóknari æfingar eins og windmill, overhead squat og turkish get up. Ketilbjöllurnar henta byrjendum jafnt þeim sem eru lengra komnir.
ÍÞR IY12 - Jóga:
Í áfanganum kynnast nemendur grunnatriðum kundalini jóga og því hvernig það getur nýst til að takast á við áskoranir nútímasamfélags. Kundalini jóga er aðgengilegt form jóga sem hentar öllum. Jákvæð áhrif af iðkun koma yfirleitt fljótt fram vegna þess hve markvisst það er. Tímarnir eru ávallt byggðir upp á svipaðan hátt og innihalda liðkandi og styrkjandi líkamsæfingar, meðvitaða öndun, góða slökun og hugleiðslu. Í hverjum tíma er einnig lögð áhersla á að vinna með tiltekin atriði, t.d. streitu, meltingu, svefn og orkuflæði. Skemmtileg og góð leið til að auka líkamlega og andlega vellíðan.