Kjúklingaréttur og pavlóvur

Matgæðingurinn Róbert Smári Gunnarsson
Matgæðingurinn Róbert Smári Gunnarsson

Matgæðingur vikunnar í tbl 1 á þessu ári var Róbert Smári Gunnarsson, sonur Elvu Bjarkar Guðmundsdóttur og Gunnars Braga Sveinssonar, og er bæði Fljótamaður og Króksari. Róbert býr í Skagafirðinum og stundar nám við Háskólann á Hólum. „Ég hef gaman af því að elda og baka og hef gaman af að prófa mig áfram. Amma mín, Imba Jós, naut þess ágætlega (held ég) í sumar, þegar ég reyndi að sýna listir mínar fyrir henni í eldhúsinu. Hugsa það hafi hafi gengið bærilega, allavega samkvæmt henni sjálfri og Bjögga frænda,“ segir Róbert Smári.

AÐALRÉTTUR
Kjúklingur með sætum kartöflum, spínati og salatosti (feta)

Þessa uppskrift af kjúklingnum sá ég fyrst hjá Svövu á ljufmeti.is. Ég minnkaði uppskriftina þannig að hún miðast við tvo fullorðna. Frábær réttur og einfaldur.

   1/2 sæt kartafla
   1/2 poki spínat
   2-3 kjúklingabringur
   1 lítil krukka salatostur (feta)
   1/2 rauðlaukur, skorinn fínt
   heilsutómatar eða konfekttómatar, skornir í bita
   furuhnetur
   balsamik gljái   

   (mér finnst gott að bæta við döðlum!)

Aðferð: Hitið ofninn í 180°C. Skrælið sætu kartöfluna og skerið í sneiðar eða notið ostaskera. Kartöflurnar eru settar í eldfast mót, smá ólífuolía yfir og kryddað með salti og pipar. Sett inn í ofn í 15 mínútur. Á meðan er kjúklingurinn undirbúinn. Skerið kjúklingabringurnar í bita og lokið þeim á heitri pönnu. Kryddið eftir smekk (t.d. með fajita). Þegar kartöflurnar hafa verið í ofninum í 15 mínútur eru þær teknar út. Þá er spínatið sett yfir þær og kjúklingurinn yfir spínatið. Síðan er tómötum og rauðlauk stráð yfir og loks salatostinum ásamt olíunni. Sett í ofn og bakað í 30 mínútur. Á meðan rétturinn er í ofninum eru furuhnetur ristaðar. Þegar rétturinn er tilbúinn er furuhnetunum stráð yfir og loks balsamik gljáa dreypt yfir.

EFTIRRÉTTUR
Pavlóvur með rjóma, berjum og Rolo-karamellusósu

Þakka móður minni fyrir aðstoðina við eftirréttinn, án hennar hefði þetta geta farið illa. Mæli með þessum eftirrétti, alveg frábær! Passleg fyrir 2-3 hringi.
   1 eggjahvíta
   ¼ tsk. safi úr sítrónu
   80 g sykur
   ¼ tsk. vanillusykur

Aðferð: Eggjahvítan er þeytt vel ásamt sítrónusafanum, og sykri bætt smám saman við. Að lokum er vanillusykrinum bætt við. Blandan er svo sett í sprautupoka og sprautað á bökunarpappír, þannig að verði að hringjum. Gott að hafa þá jafn stóra svo hægt sé að para saman. Einnig er gott að ýta aðeins á toppinn svo þær verði ekki ójafnar. Bakað við 130°c í 45 mínútur. (Ath. misjafnt eftir ofnum). Síðan er rjómi þeyttur og settur á milli og eins ofan á líka. Skreytt með berjum og nammi að vild.

Rolo krem:
   2 ½ lengja Rolo
   ½ dl rjómi

Aðferð: Allt sett saman í pott þar til Roloið hefur bráðnað saman við rjómann. Kælt örlítið áður en hellt er yfir pavlóvurnar. Verði ykkur að góðu!

Verði ykkur að góðu

Sigga sigga sigga

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir