Klassísk „Sloppy Joe“ og jólaís.

Matgæðingurinn Andri ásamt systrum sínum, Ingibjörgu Önju vinstra megin, og Hafrúnu Ásu til hægri. Aðsend mynd.
Matgæðingurinn Andri ásamt systrum sínum, Ingibjörgu Önju vinstra megin, og Hafrúnu Ásu til hægri. Aðsend mynd.

Matgæðingur vikunnar í 46. tbl. Feykis árið 2017 var hinn 23 ára Andri Freyr sem þá hafði búið á Hvammstanga í fjögur ár og starfaði sem kokkur á Heilbrigðisstofnuninni þar en áður hafði hann unnið á veitingastaðnum Sjávarborg. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á matargerð og mikið unnið við hana og elska að læra einhvað nýtt frá öðrum,“ sagði Andri Freyr sem gaf lesendum uppskrift að girnilegum hakkrétti, sem er einföld og hægt að breyta að smekk, og jólalegum Toblerone-ís. 

AÐALRÉTTUR
Klassísk „Sloppy Joe“ 

500 g hakk
½ laukur i bitum
½ græn paprika
½ tsk. hvítlauksduft
1 tsk. dijon sinnep
1½ dl tómatsósa
3 tsk. púðursykur
salt og pipar eftir smekk.

Aðferð:
Hakkið brúnað með lauknum og paprikunni. Hellið auka vökvanum af og bætið hvítlauksdufti, sinnepi, og púðursykri út í og látið malla i 25-30 mínutur. Saltað og piprað að lokum. 

„Þetta er mjög einföld og þægileg uppskrift og hægt að leika sér endalaust að henni. Ég byrjaði með hana svona upprunalega en svo má minnka tómatsósuna um helming og setja i staðinn u.þ.b. ¾ dl sweet chilli sósu, ½ dl rauðvín og uppáhalds chilli sósuna eftir smekk (Sriracha best af mínu mati). Þetta fer vel með hrásalati og svo ber ég fram hrísgrjón i stað brauðs.“ 

EFTIRRÉTTUR
Tobleroneís

„Það eru nú að koma jól og ekkert minnir mig á jólin eins og Tobleroneísinn sem mamma gerir alltaf.“ 

5 eggjarauður
5 msk. sykur
150 g Toblerone, brætt
5 dl rjómi, þeyttur
100 g Toblerone, fínsaxað

Aðferð:
Þeytið eggjarauður og sykur saman í hrærivél í 3-4 mínútur eða þar til blandan er orðin létt og ljós. Bræðið 150 g af Tobleronesúkkulaði yfir vatnsbaði, kælið það lítillega og hellið því síðan út í eggjablönduna í mjórri bunu. Blandið vel saman. Hrærið rjómann að lokum varlega saman við með sleif. Hellið blöndunni í fallegt mót og skreytið með söxuðu Toblerone. Frystið í a.m.k. 4 klukkustundir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir