Knapar af Norðurlandi vestra sigursælir á Skeifudegi

Verðlaunahafar Skeifudagsins: Björn Ingi Ólafsson, Elínborg Árnadóttir, Helga Rún Jóhannsdóttir, Steindóra Ólöf Haraldsdóttir og Laufey Rún Sveinsdóttir. Myndir af FB síðu LBHÍ.
Verðlaunahafar Skeifudagsins: Björn Ingi Ólafsson, Elínborg Árnadóttir, Helga Rún Jóhannsdóttir, Steindóra Ólöf Haraldsdóttir og Laufey Rún Sveinsdóttir. Myndir af FB síðu LBHÍ.

Fyrir skömmu var Skeifudagurinn á Hvanneyri haldinn hátíðlegur en að þessu sinni var honum streymt á vefnum vegna samkomutakmarkanna. Skeifudagurinn á sér langa sögu en Morgunblaðsskeifan var fyrst veitt við skólaslit Bændaskólans á Hvanneyri þann fjórða maí 1957. Vildi Morgunblaðið með þessu framtaki sýna hug sinn til þessarar fornu og fögru íþróttar, hestamennskunnar. Fjórir nemendur af Norðurlandi vestra sópuðu til sín verðlaunum.

Á Facebooksíðu Landbúnaðarháskóla Íslands segir að Skeifudagurinn sé sannkölluð uppskeruhátíð nemenda í reiðmennskuáföngum skólans og sýna nemendur afrakstur vetrarins á tamningu og þjálfun tveggja hrossa. Þá eru veitt þar verðlaun auk Morgunblaðsskeifunnar, Gunnarsbikarinn, sem fer til þess nemenda sem fær hæstu einkunn í fjórgangskeppni, ásetuverðlaun Félags tamningamanna, Framfaraverðlaun Reynis. Morgunblaðskeifan sem fer til þess nemenda sem hlýtur hæstu meðaleinkunn úr verklegum reiðmennskuprófum. Morgunblaðsskeifan hefur verið veitt árlega síðan 1957, en mikill heiður þykir að hljóta Skeifuna og hafa sumir handhafar hennar seinna meir orðið einhverjir ástsælustu hestamenn landsins.

Laufey Rún Sveinsdóttir hampar hér Morgunblaðsskeifunni
en þau verðlaun eru veitt þeim nemanda sem náð hefur
bestum samanlögðum árangri í frumtamningaprófi og í
reiðmennskuhluta knapamerkis III.

Morgunblaðsskeifan
Morgunblaðsskeifan var fyrst veitt við skólaslit Bændaskólans á Hvanneyri 4. maí 1957 og kemur fram í frétt skólans að með því framtaki hafi Morgunblaðið viljað sýna hug sinn til þessarar fornu og fögru íþróttar, hestamennskunnar. Morgunblaðsskeifan nú er veitt þeim nemanda sem náð hefur bestum samanlögðum árangri í frumtamningaprófi og í reiðmennskuhluta knapamerkis III.

Fyrstu tvö sætin komu í hlut vinkvennanna frá Sauðárkróki, Laufeyju Rún Sveinsdóttur og Steindóru Ólöfu Haraldsdóttur en í þriðja sæti nældi Helga Rún Jóhannsdóttir frá Bessastöðum í Húnaþingi vestra. Elínborg Árnadóttir úr Reykjavík kom næst í fjórða sæti en þriðji Króksarinn, Björn Ingi Ólafsson, krækti sér í það fimmta.

Helga Rún Jóhannsdóttir handhafi Gunnarsbikarsins
sem gefinn var til minningar um Gunnar Bjarnason.

Gunnarsbikar
Gunnarsbikarinn sem hefur verið veittur síðan 2008 og er gefinn af Bændasamtökum Íslands til minningar um Gunnar Bjarnason, fyrrum hrossaræktarráðunaut og kennara á Hvanneyri. Gunnar sýndi mikið frumkvæði í starfi sínu sem reiðkennari og var fyrstur til að kenna nemendum sínum að temja hesta sér til reiðar. Hefur slík kennsla haldist nær óslitin síðan. Úrslit voru þessi:
1. sæti Helga Rún Jóhannsdóttir
2. sæti Steindóra Ólöf Haraldsdóttir
3. sæti Sverrir Geir Guðmundsson
4. sæti Laufey Rún Sveinsdóttir
5. sæti Elínborg Árnadóttir
6. sæti Björn Ingi Ólafsson

Steindóra Ólöf Haraldsdóttir þótti sitja hest sinn best
og hlaut að launum Ásetuverðlaun FT

Eiðfaxabikarinn
Eiðfaxabikarinn hefur verið veittur síðan 1978. Hann er veittur þeim nemenda sem hlýtur bestu einkunn í bóklegum áfanga og hlaut hann í ár Elínborg Árnadóttir.

Ásetuverðlaun FT
Félag tamningamanna hefur veitt ásetuverðlaun frá árinu 1971 og hlýtur þau sá nemandi sem þykir sitja hest sinn best. Ásetan skal vera falleg og notuð til að stjórna hestinum. Þau hlaut Steindóra Ólöf Haraldsdóttir.

Björn Ingi Ólafsson sýndi mestan áhuga, ástundun
og tók mestum framförum í reiðmennsku II
og fékk viðurkenningu að launum.

 

 

Framfarabikar Reynis
Verðlaunin hafa verið veitt síðan 2013 þeim nemenda sem hefur sýnt hvað mestan áhuga, ástundun og tekið hvað mestum framförum í reiðmennsku II, sem saman stendur af knapamerki III og frumtamningaráfanga. Þessi bikar er gjöf Hestamannafélagsins Grana til minningar um Reyni Aðalsteinsson og alla þá frábæru hluti sem hann gerði fyrir hestamennsku á Hvanneyri og víðar. Verðlaunin í ár hlaut Björn Ingi Ólafsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir