Komugjöld á heilsugæslu lækka

Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki. Mynd:hsn.is
Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki. Mynd:hsn.is

Þann 1. janúar næstkomandi munu almenn komugjöld í heilsugæslu lækka úr 700 krónum í 500 krónur. Sem fyrr greiða börn, öryrkjar og aldraðir ekkert komugjald. Fellt verður niður sérstakt komugjald hjá þeim sem sækja aðra heilsugæslustöð en þeir eru skráðir hjá. Heilsugæslan um allt land tekur um áramót við skimunum fyrir krabbameini í leghálsi. Gjald fyrir leghálsstrok lækkar þá úr 4.818 krónum í 500 krónur.

Í frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins segir að gjaldskrárlækkanirnar séu liður í áætlun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga. Áætlaður kostnaður vegna framangreindra breytinga nemur um 135 milljónum króna á ári.

Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri taka frá áramótum við framkvæmd skimana fyrir krabbameini í brjóstum. Gjald fyrir brjóstaskimun hækkar um 2,7% en sú breyting verður jafnframt gerð að gjaldið verður fellt inn í afsláttarkerfi sjúkratrygginga.

Fleiri breytingar verða hjá heilsugæslunni. Sérstökum heilsueflandi námskeiðum fyrir konur í yfirvigt verður komið á fót og einnig námskeiðum til að bæta tilfinningalega líðan á meðgöngu. Heilsugæslan mun enn fremur frá áramótum gefa út gjaldfrjáls vottorð fyrir starfshæfnismat sem er forsenda fyrir umsókn um starfsendurhæfingu hjá VIRK.

Hætt verður að krefjast tilvísunar frá heimilis- eða heilsugæslulækni fyrir börn sem fara í rannsókn í beinu framhaldi af komu á slysadeild eða á bráðamóttöku sjúkrahúsa og gjöld fyrir þessar komur falla niður. Sama máli gegnir ef börn fara til sérfræðings á göngudeild eða dagdeild sjúkrahúsa í beinu framhaldi af komu á slysadeild eða bráðamóttöku.

Almennt munu gjöld fyrir opinbera heilbrigðisþjónustu hækka um 2,7% í samræmi við verðbólguspá samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá 1. október síðastliðnum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir