Kórónaveiran greinist á Íslandi
Í dag greindist fyrsta staðfesta tilfellið af COVID-19 kórónaveirunni á Íslandi og hefur hættustig almannavarna verið virkjað vegna þess. Greint hefur verið frá því að íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri hafi verið færður í einangrun á Landspítala eftir að sýni úr honum reyndist jákvætt fyrir veirunni. Maðurinn er ekki alvarlega veikur en sýnir dæmigerð einkenni COVID-19 sjúkdóms sem eru hósti, hiti og beinverkir.
Á vef almannavarna segir að í ljósi þessa muni ríkislögreglustjóri, í samráði við sóttvarnalækni, virkja hættustig almannavarna. Er þetta gert bæði vegna þess að ekkert lát er á hópsýkingu af völdum veirunnar ytra, þá sérstaklega í Evrópu, og að fyrsta tilfellið hefur nú verið staðfest hér á landi.
Maðurinn sem greindist var nýverið staddur á Norður-Ítalíu utan skilgreinds hættusvæðis fyrir veiruna. Unnið er að rakningu smitleiða en markmið þeirrar vinnu er að varpa ljósi hverjir gætu verið útsettir vegna þessa staðfesta smits.
Á blaðamannafundi í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð sem nú er nýlokið var fólk hvatt til þess að halda ró sinni og fara eftir leiðbeiningum landlæknis, meðal annars um hreinlæti.
Á vef landlæknisembættisins er að finna leiðbeiningar til almennings vegna COVID-19 veirunnar. Sjá einnig á vef almannavarna og á Facebooksíðunni Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.