Kosning hafin á manni ársins á Norðurlandi vestra

Maður ársins 2021 að mati lesenda Feykis, Árni Björn Björnsson. Nú er komið að vali á manni ársins 2022.
Maður ársins 2021 að mati lesenda Feykis, Árni Björn Björnsson. Nú er komið að vali á manni ársins 2022.

Eins og undanfarin ár stendur Feykir fyrir kjöri á manni ársins á Norðurlandi vestra. Gefst íbúum á svæðinu og öðrum lesendum Feykis kostur á að velja úr hópi þeirra sem tilnefndir voru af lesendum. Sjö tilnefningar bárust sem teknar voru til greina í kjörið.

Hægt verður að greiða atkvæði á vefnum Feykir.is eða senda atkvæði í pósti á: Feykir, Borgarflöt 1, 550 Sauðárkróki. Kosningin hófst kl. 12 fimmtudaginn, 22. desember og lýkur kl. 12 á hádegi á nýársdag, 1. janúar.

Tilnefndir eru, í stafrófsröð:

Andrés Helgason fjárbóndi
„Mig langar að stinga upp á Andrési Helgasyni, bónda í Tungu, fyrir þrotlaust starf við að bjarga útigangskindum af fjöllum síðust áratugi. Í ár og síðasta ár skipta þær hundruðum, sem hann hefur, ásamt sínum félögum, bjargað til byggða,“ segir í greinargerð um tilnefningu Andrésar.

 

Bjarni Gaukur Sigurðsson og Reyni Grétarsson Blönduósvinir
Þeir félagar hafa hafið uppbyggingu Gamla bæjarins á Blönduósi með það að markmiði að glæða hann lífi með hjálp sveitunga sinna og nú þegar er byrjað að gera hótelið upp. Verkefnið er hugsað sem langtímaverkefni en með aðkomu þeirra má segja að boltinn hafi farið að rúlla og vonandi koma fleiri að verkefninu þegar fram í sækir.

 

Greta Clough fjöllistakona
Að mínu mati er Greta maður ársins á Norðurlandi vestra. Hún hefur verið óþreytandi við að glæða menningarlífið í Húnaþingi vestra með skapandi list sinni í Handbendi Brúðuleikhús enda hefur hún fengið viðurkenningar fyrir það sem handhafi Eyrarrósarinnar 2021. Þá hefur hún laðað erlenda listamenn til Hvammstanga til að taka þátt í brúðulistahátíðinni International Puppet Festival. Fleira mætti taka til eins og uppsetningar barnaleikrita og leiklistarnámskeið fyrir börn.

 

Hreiðar Örn Steinþórsson varðstjóri
Hreiðar er varðstjóri hjá Brunavörnum Skagafjarðar og í sjúkraflutningum er hann á heimavelli. Hann hugsar ekki bara um þann slasað eða veika heldur hugsar hann um alla á staðnum. Hreiðar passar að öllum líði vel í aðstæðunum og heldur fólki upplýstu. Hann leggur allt sitt í þetta starf bæði af fagmennsku og hlýju. Það er ómetanlegt í krefjandi aðstæðum að hafa Hreiðar á hliðarlínunni til stuðnings í þeim verkefnum sem fólk tekst á við.

 

Sigríður Inga Viggósdóttir sjálfboðaliði
Sigríður Inga Viggósdóttir er tilnefnd sem manneskja ársins fyrir framlag sitt til íþrótta og tómstundastarf í Skagafirði. „Hún sá algjörlega til þess að úrslitakeppnin í körfuboltanum væri með eins góðri umgjörð fyrir stuðningsmenn og hægt væri,“ segir í tilnefningunni. Sigríður Inga er öflug í öllum þeim verkefnum sem hún tekur þátt í og flest, ef ekki öll, eru unnin í sjálfboðavinnu.

 

Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir aðgerðarsinni
Eftir að hafa upplifað mikla útskúfun í samfélaginu tók Tanja völdin í eigin hendur og hélt fyrstu Druslugönguna sem haldin hefur verið á Sauðárkróki við góðar undirtektir. Tanja er í Öfgum, sem er femínista hópur sem berst gegn kynbundnu ofbeldi, og styður við þolendur kynferðisofbeldis. Hún tók þátt í að skrifa skuggaskýrslu um kvennasáttmálann og ávarpaði þing Sameinuðu þjóðanna.

 

Valdimar Guðmannsson Valli Húnabyggð
Valdimar er einn mesti talsmaður fyrir neyslu landbúnaðarafurða ekki síst lambakjöts eins og frægt er orðið með fjölda kótilettukvölda. Þá er hann öflugur í mörgum öðrum samfélagsverkefnum og má í því sambandi nefna kirkjugarðinn á Blönduósi. Þá er hann einkar jákvæður á öllum sviðum mannlífsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir