Kostnaður Sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna Aðalgötu 21

Í liðinni viku fékk ég loks svör við fyrirspurnum mínum varðandi kostnað sveitarfélagins við endurbætur húsanna við Aðalgötu 21. Þar kemur fram að heildarkostnaður við framkvæmdir húsanna er nú tæpar 318 milljónir króna. Verkið er því komið 118 milljónir fram yfir upphaflega áætlun sem hljóðaði upp á 200 milljónir króna og er þó enn ekki lokið. Stærsti kostnaðarliðurinn eru iðnaðarmenn á tímakaupi, ásamt kostnaði við uppihald þeirra hér þar sem þeir komu annarsstaðar frá. Tilgreindan kostnað við verkið að svo stöddu má nálgast HÉR.

Sveitarfélagið greiðir tveimur starfsmönnum upplýsingamiðstöðvar laun á ársgrundvelli sem hafa aðsetur sitt hjá fyrirtækinu Sýndarveruleika ehf. Í starfssamningi þessara starfsmanna kemur fram að þeim er ætlað að sinna vinnu “m.a. tengda starfsemi Sýndarveruleika í Aðalgötu 21, þegar svigrúm vegna almennrar aðstoðar við ferðamenn leyfir”. Starfsmenn sveitarfélagsins eru því til að mynda við afgreiðslu veitingarstaðarins Grána Bistro. Sá veitingastaður er starfræktur í eldhúsi sem er kostað af Sveitarfélaginu Skagafirði. Í kjölfarið hafa vaknað hjá mér spurningar um samkeppnisgrundvöll annarra veitingastaða í héraðinu.

Ýmsu er enn ósvarað
Í gögnunum um kostnað verkefnisins eru háar upphæðir án fullnægjandi skýringa. Að setja önnur vörukaup fyrir tæplega 70 milljónir króna án nánari skilgreininga er tæplega gegnsæi í stjórnsýslu. Ekki er hægt að fá rekstrarupplýsingar hvað varðar starfsemina í húsunum að svo stöddu, einungis að ekki sé gert ráð fyrir hagnaði á fyrstu misserum sýningarinnar. Ekki eru skýr svör um hvort að hið margverðlaunaða Byggðarsafn Skagfirðinga fái aðstöðu í húsnæðinu ef rekstur Sýndarveruleika ehf. gengur ekki sem skildi. En upphaflega var farið í makaskipti þessara húsa og Minjahússins á Sauðárkróki við Kaupfélag Skagfirðinga með það á stefnuskránni að nýta þau undir Byggðarsafnið. Byggðarsafnið er hins vegar enn á hrakhólum og ekki lausn komin á húsnæðisvanda þess í nánustu framtíð.

Það fjármagn sem hefur verið sett í húsin við Aðalgötu 21 er fé úr sameiginlegum sjóðum íbúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar en einnig hefur þurft að fjármagna aukakostnað með langtímalánum sem eykur enn á skuldir sveitarfélagsins. Ráðamenn hér verða að sýna fjármunum íbúa meiri virðingu og meðhöndla þá með ábyrgari hætti en gert hefur verið. Þessum tæplega 320 milljónum hefur ekki verið ráðstafað í verkefni sem varða lögbundna þjónustu sveitarfélagsins, en þar mætti sannarlega gera betur.

Ég hvet íbúa Sveitarfélagsins til að fylgjast vel með í hvað fjármunum þeirra er varið og sýna þannig meirihluta sveitarstjórnar nauðsynlegt aðhald á hverjum tíma.

Álfhildur Leifsdóttir
Sveitarstjórnarmaður Vinstri grænna og óháðra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir