KR-ingar sigruðu Tindastól í úrslitaleik Lengju-bikarsins

Tindastólsmenn gerðu þokkalega ferð suður um helgina en þar lék liðið fyrst í undanúrslitum Lengjubikarsins gegn Fjölni og hafði betur. Í úrslitaleiknum á laugardag voru það Íslandsmeistararnir úr Vesturbænum sem reyndust sterkari og silfrið því hlutskipti Stólanna að þessu sinni.

Stólarnir skröltu suður í snjónum á föstudaginn en það var enginn skjálfti í köpppunum þegar þeir áttu við Grafarvogs-piltana í Fjölni í undanúrslitum. Tindastóll náði yfirhöndinni fyrir lok fyrsta fjórðungs og héldu forystunni allt til loka. Fjölnir hékk í Stólunum fram að hléi en þá var staðan 43-36. Eftir tvær og hálfa mínútu í síðari hálfleik var munurinn orðinn 15 stig og ljóst að það var á brattann fyrir Fjölni. Enda fór svo á endanum Stólarnir unnu öruggan sigur, 92-73, og tryggðu sér sæti í úrslitum Lengjubikarsins. Dempsey (25) og Lewis (24) voru stigahæstir Stólanna og Dempsey var að auki með 14 fráköst. Pétur Birgis var með 7 stoðsendingar og 10 stig og þá setti Helgi Margeirs í fjóra þrista.

Í úrslitaleiknum mættu Stólarnir liði KR sem sigraði Hauka 93-83 í síðari undanúrslitaleiknum á föstudagskvöld. Því miður náðu Stólarnir sér ekki almennilega á strik í leiknum og voru KR-ingar yfir frá fyrsta til síðustu mínútu. Þeir komust yfir 14-4 eftir tæpar fimm mínútur en Stólarnir klóruðu í bakkann og eftir fyrsta leikhluta var staðan 26-17. Í öðrum leikhluta var hittni Tindastóls ekki til eftirbreytni en sem betur fer gekk KR-ingum ekki mikið betur að finna körfu Stólanna. Í hálfleik var staðan 41-26 fyrir KR.

Tindastólsmenn komu kraftmeiri til leiks í þriðja leikhluta. KR gerði reyndar fyrstu fjögur stigin og náðu 19 stiga forystu en þá hrukku Stólarnir í gírinn og söxuðu hægt og sígandi á forskot KR. Ingvi Rafn náði síðan að sökkva 3ja stiga skoti þegar um ein og hálf mínúta var eftir af þriðjungnum og minnka muninn í þrjú stig, 50-53. Breiddin í liði Íslandsmeistaranna sagði til sín og þeir juku muninn og héldu öruggu forskoti út fjórða leikhluta en lokatölur urðu 83-75.

Lewis (23stig/8stoð) og Dempsey (21stig/11stoð) voru enn á ný atkvæðamestir en Pétur var með 13 stig. Það var skarð fyrir skyldi að Helgi Rafn og Flake voru ekki að finna sig í leiknum og þá fann Helgi Margeirs ekki fjölina aftur frá því á föstudag.

Niðurstaðan – silfurverðlaun í Lengjubikarnum – er fín byrjun á keppnistímabilinu og vonandi að lið Tindastóls eigi eftir að vaxa enn frekar þegar Íslandsmótið hefst nú í október.

Fleiri fréttir