Krefjast dýralæknis og Líf afurðarhæst - Aðalfundur NFVH
Nautgriparæktarfélag Vestur-Húnavatnssýslu er uggandi vegna stöðu dýralæknamála í Húnavatnssýslum. Þetta kom fram á aðalfundi NFVH sem haldinn var í Ásbyrgi sl. fimmtudag, þann 24. febrúar en þar var eftirfarandi bókun lögð fram í fundargerð: „ krefst þess að landbúnaðarráðherra skipi 1 dýralæknir í Vestur Húnavatnssýslu og annan í Austur Húnavatnssýslu. Þeir geti þá leyst hvorn annan af.“
Á fundinum var kosin ný stjórn en Pétur Þröstur Baldursson frá Þórukoti leysti Pétur H. Sigurvaldason af hólmi í stjórn félagsins. Eftir aðalfund skipti stjórnin með sér verkum og er skipuð þannig; Pétur Þröstur Baldursson frá Þórukoti ritari, Örn Óli Andrésson frá Bakka gjaldkeri og Valgerður Kristjánsdóttir frá Mýrum 3 er formaður.
Verðlaunaafhendingar og farið yfir stöðu mjólkurframleiðslu kúabúa í Húnavatnssýslum 2011
Á fundinum kom jafnframt fram að kýrnar í Húnavatnssýslum og á Ströndum framleiddu 5.233 kg á síðasta ári, sem er lítilsháttar aukning frá fyrra ári.
Þórður Pálsson frá Búnaðarsambandinu veitti Bjarneyju Öldu Benediktsdóttur og Pétri Sigurvaldasyni frá Neðri Torfustöðum verðlaun fyrir hæst dæmdu kúnna í Vestur-Húnavatnssýslu, hana Brák nr. 389, með 90 stig.
Kúabúið á Bessastöðum hlaut tvenn verðlaun og veitti Guðný H. Björnsdóttir þeim viðtöku, annarsvegar fyrir afurðahæstu kúnna, Líf nr. 227 með ársnyt upp á 9.116 kg og einnig fyrir afurðarhæsta búið 2011, með 6.794 kg á árskú.
Afurðarhæstu kúabúin á svæði Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda árið 2011 voru:
- Tjörn á Skaga með 32,3 árskýr, afurðir 6.834 kg, fita 4,25% og prótein 3,3%
- Bessastaðir með 29,7 árskýr, afurðir 6,794 kg, fita 3,94% og prótein 3,28%
- Brúsastaðir með 51,5 árskýr, afurðir 6,458 kg, fita 4,23% og prótein 3,43%
- Búrfell með 25,4 árskýr, afurðir 6.224 kg, fita 3,91 og prótein 3,56%
- Steinnýjarstaðir með 35,2 árskýr, afurðir 6.202 kg, fita 4,14% og prótein 3,33%
- Syðri-Hóll með 41,4 árskýr, afurðir 6.147 kg, fita 3,71% og prótein 3,41%
- Hnjúkur með 36 árskýr, afurðir 5.977 kg, fita 4,17% og prótein 3,35%
- Bakki með 33,9 árskýr, afurðir 5.757 kg, fita 3,89% og prótein 3,41%
- Valdarás með 25,8 árskýr, afurðir 5.717 kg, fita 4,97 og prótein 3,48%