Kristinn Gísli í sigurliði í alþjóðlegri kokkakeppni

Hinrik Lárusson og Kristinn Gísli Jónsson með sigurlaunin. Mynd: Viktor Örn Andrésson.
Hinrik Lárusson og Kristinn Gísli Jónsson með sigurlaunin. Mynd: Viktor Örn Andrésson.

Skagfirðingurinn Kristinn Gísli Jónsson og Selfyssingurinn Hinrik Lárusson, tóku þátt í alþjóðlegri matreiðslukeppni sem klúbbur matreiðslumeistara í Norður Grikklandi stóð fyrir og sigruðu með glæsibrag. Yfir 350 keppendur voru skráðir til leiks í mismunandi keppnisgreinum og kepptu þeir Kristinn Gísli og Hinrik í Liði ársins eða „Team of the year“.

Á vefnum Veitingageirinn kemur fram að í keppninni hafi verið einboðið að nota bláskel, ólífuolíu, ólífur og rissotto grjón og leit keppnismatseðillinn hjá Íslenska liðinu svona út:

Létt grafinn makríll, bláskel, dill og jurtir.
Sjávarrétta súpa með blómkáli og ólífuolíu vinaigrette.
Pönnusteikt íslenskt lambafillet með grænertu risotto, reyktum lauk, svörtum ólífum og soðgljáa.

Kristinn Gísli sagði, í samtali við Feyki, að þeir félagar hefðu lítið vitað við hverju var að búast, er hann var inntur eftir því hvort hann hafi átt von á verðlaunum í keppninni. Hann segir að þeir Hinrik hafi búið yfir meiri reynslu en keppendur hinna liðanna en þó hafi komið á óvart hversu hörð keppnin reyndiist. Hann var ánægður með árangurinn og var þakklátur fyrir allan þann stuðning sem þeir félagar fengu til fararinnar.

Þátttaka Íslands réðst af því að Viktori Erni Andréssyni, Bocuse d´Or matreiðslumanni, var boðið að dæma í keppninni fyrir Íslands hönd og í kjölfarið að taka með sér keppendur frá Íslandi þar sem um alþjóðlega keppni var að ræða.

Sjá nánar Hér

Fleiri fréttir