Króksamótið á laugardaginn

Hið árlega Króksamót Tindastóls í minnibolta í körfu verður haldið nk. laugardag, 12. Nóvember en þá hafa þátttakendur frá Hvammstanga, Skagaströnd og Akureyri auk heimakrakka í Skagafirði boðað komu sína.

 

Króksamótið, sem kennt er við körfuboltalukkudýr Tindastóls, Króksa, var haldið í fyrsta skiptið á síðasta tímabili, nánar tiltekið í janúar, eftir að hafa verið frestað vegna veðurs í nóvember fyrir ári síðan. Um 140 krakkar tóku þátt í fyrra og stefnir í annan eins fjölda að þessu sinni.

Samkvæmt heima síðu Tindastóls munu krakkarnir spila körfubolta í marga klukkutíma og fá að sjá m.a. troðslusýningu erlendu leikmannanna hjá Tindastóli sem skemmtiatriði. Fræg er troðslusýning Hayward Fain í fyrra sem sjá má HÉR.

Í mótslok munu þátttakendur síðan fá máltíð áður en haldið verður heim á leið auk þess sem FISK-Seafood mun sjá til þess að allir fái sérmerkta boli með sér heim af mótinu.

Mótsstjóri er Róbert Óttarsson og hægt að ná í hann í síma 696-0700 og á netfanginu robertottars@gmail.com

Myndasafn frá síðasta Króksamóti er hægt að nálgast á Tindastóll.is.

Fleiri fréttir