Ladies Circle á Sauðárkróki standa fyrir Jól í skókassa

Ladies Circle eru alþjóðleg góðgerðar- og vináttusamtök kvenna á aldrinum 18-45 ára og er stuðlað að því að konur kynnist hverri annarri og efli, kynnist ólíkum reynsluheimum og margvíslegri menningu. Á Íslandi eru fimmtán Ladies Circle klúbbar víðsvegar um land, og er einn þeirra, sá tólfti, starfræktur á Sauðárkróki. Í klúbbnum eru sextán konur úr Skagafirði og er Hrund Pétursdóttir formaður hans. Framundan í starfi LC12 er verkefnið Jól í skókassa sem verður í Ljósheimum á morgun, fimmtudaginn 24. október.

Hrafnhildur Viðarsdóttir er ein þeirra sem skipuleggja vinnuna í kringum Jól í skókassa og var hún spurð hvað hafi ráðið því að klúbburinn hafi tekið að sér það verkefni.
„Við höfum rætt það lengi innan LC12 að taka þátt í þessu verkefni, kannski hafa októberfundinn tileinkaðan því verkefni eða eitthvað álíka. En einhvern veginn hefur það hingað til farið fyrir ofan garð og neðan, og við oft fallið á tíma. Svo ákváðum við bara þetta árið að taka af skarið, og bæta um betur með því að bjóða bara öllum á Sauðárkróki að taka þátt í þessu með okkur. Við nefnilega vitum allar um einhverja sem langar að taka þátt, en vita ekki hvert á að skila gjöfunum, vita ekki alveg hvernig gjöfunum þarf að vera háttað og svo framvegis. Þess vegna ákváðum við að halda svolítið utan um þetta. Forsvarsmenn Ljósheima voru svo yndisleg að leyfa okkur að vera í Ljósheimum án endurgjalds frá 17-19 þann 24. október. Þau í Nýprent voru svo örlát að gefa okkur auglýsingu í verkið og Skagfirðingabúð mun styrkja okkur með piparkökum eða einhverju smá snarli sem við getum boðið upp á,“ segir Hrafnhildur.

Jól í skókassa snýst um að safna saman jólagjöfum pökkuðum ofan í skókassa sem eru svo áframsendar til Úkraínu þar sem þeim er dreift til barna sem Hrafnhildur segir að engar gjafir fái annars. „Við munum taka smá forskot á jólaskapið, spila jólalög og ekki er ólíklegt að stöku jólapeysa prýði mannskapinn. En hvað varðar gjafirnar, þá eru nokkrar reglur sem þarf að hafa í huga. Til dæmis þarf að passa upp á það að umslag sé efst í hverjum kassa með 500-1000 krónum sem dekkar þann kostnað sem fylgir því að koma gjöfunum áfram.“

En það er ekki alveg sama hvernig gengið er frá skókassanum. Svona á að bera sig að: 
1. Finnið tóman skókassa og pakkið honum inn í jólapappír. Athugið að pakka lokinu sérstaklega inn þannig að hægt sé að opna kassann. Hægt er að nálgast skókassa í skóbúðum og mælt er með því að fólk tryggi sér kassa í tæka tíð.
2. Ákveðið hvort gjöfin sé ætluð fyrir strák eða stelpu og fyrir hvaða aldur: (3-6), (7-10), (11-14) eða (15-18). Á heimasíðu KFUM má finna tilbúinn merkimiða og prenta. Klippið miðann út, merkið við réttan aldursflokk og límið ofan á skókassann. Einnig er hægt að útbúa sína eigin merkimiða og merkja aldur og kyn á þá.
3. Setjið 500-1.000 krónur í umslag og leggið efst í kassann. Peningurinn er fyrir kostnaði sem fylgir verkefninu.
4. Lokið kassanum með því að setja teygju utan um hann.

GJAFIR Í SKÓKASSANA
Í kassann skal setja a.m.k. einn hlut úr hverjum eftirtalinna flokka: 

1. Leikföng, t.d. litla bíla, bolta, dúkku, bangsa eða jó-jó. Athugið að láta auka rafhlöður fylgja rafknúnum leikföngum.
2. Skóladót, t.d. penna, blýanta, yddara, strokleður, skrifbækur, liti, litabækur eða vasareikni.
3. Hreinlætisvörur. Óskað er eftir því að allir láti tannbursta, tannkrem og sápustykki í kassann sinn. Einnig má setja greiðu, þvottapoka eða hárskraut.
4. Sælgæti, t.d. sleikjó, brjóstsykur, pez, tyggjó eða karamellur.
Föt, t.d. húfu, vettlinga, sokka, trefil, bol eða peysu.

HVAÐ MÁ EKKI FARA Í SKÓKASSANA? 

1. Mikið notaðir eða illa farnir hlutir.
2. Matvara.
3. Stríðsdót, t.d. leikfangabyssur, leikfangahermenn eða hnífar.
4. Vökvar, t.d. sjampó, krem eða sápukúlur.
5. Lyf, t.d. vítamín, hálsbrjóstsykur eða smyrsl.
6. Brothættir hlutir, t.d. speglar eða postulínsdúkkur.
7. Spilastokkar. Þar sem spilastokkar eru tengdir fjárhættuspilum í Úkraínu, óskum við eftir að þeir séu ekki gefnir í skókassana

„Við bendum á að seinustu ár hefur verið alvarlegur skortur á gjöfum til 11-14 ára drengja, og vonumst við til að bæta úr því þetta árið,“ segir Hrafnhildur sem vonast til að sjá sem flesta taka þátt í þessu verkefni klúbbsins. „Hvað er betra en að starta jólavertíðinni á góðverki?,“ spyr hún og vel er hægt að taka undir það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir