Lærdómssamfélag í skólum í Skagafirði fær 1.350.000 krónur úr Sprotasjóði

Kápa Menntastefnu Skagafjarðar. Bæklingurinn var hannaður og prentaður hjá Nýprenti.
Kápa Menntastefnu Skagafjarðar. Bæklingurinn var hannaður og prentaður hjá Nýprenti.

Verkefnið Lærdómssamfélag í skólum í Skagafirði fékk úthlutað 1.350.000 krónum úr Sprotasjóði, en honum er ætlað að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá viðkomandi skólastiga. Alls munu 26 verkefni hljóta styrki að þessu sinni en heildarupphæð styrkjanna eru rúmlega 56 milljónir kr. Alls bárust 46 umsóknir um styrki þegar auglýst var fyrr í vetur og var heildarupphæð umsóknanna rúmar 155 milljónir kr.

„Umsóknirnar bera vott um þá grósku sem einkennir íslenskt skólastarf, þarna eru fjölmörg spennandi verkefni sem án efa munu auðga nám og tækifæri bæði nemenda og kennara,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á vef ráðuneytisins. 

Herdís Á. Sæmundardóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Svf. Skagafjarðar, segir styrkinn tengjast gerð nýrrar menntastefnu sveitarfélagsins. „Við fórum í mikla vinnu við að gera nýja menntastefnu sem nær til fleiri en þeirra skóla sem sveitarfélagið rekur, þ.e Fjölbrautaskólans og frístundastarfsins,“ segir Herdís en víðtækt samráð hafi verið haft við alla aðila skólasamfélagsins í héraðinu. Menntastefnan nær til allra barna og ungmenna í Skagafirði frá upphafi skólagöngu í leikskóla til loka náms í framhaldsskóla. Áhersla er lögð á að nám barna og ungmenna eigi sér stað bæði innan skólans sem og í frístundastarfi og aukna samvinnu ólíkra skólastiga, skólagerða og frístundar til að tryggja samfellu í námi.

Við gerð menntastefnunnar voru haldnir opnir íbúafundir í Sæluviku 2019 þar sem mótun menntastefnunnar var m.a. unnin. „Við erum að ljúka vinnunni núna og búið að prenta út en við ætlum ekki að dreifa henni fyrr en í haust meðfram innleiðingu hennar í skólana.“

Tengdar fréttir:
Ný Menntastefna Skagafjarðar tekur gildi 
Íbúafundir um mótun menntastefnu í Sæluviku

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir