Lambaskankar og ostakaka með Nóa kroppi og hindberjasós

Matgæðingarnir Ástrós og Guðni. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Ástrós og Guðni. Mynd úr einkasafni.

„Þar sem við erum ekkert mikið fyrir að flækja hlutina þegar kemur að eldamennsku þá eru þessir réttir í uppáhaldi hjá okkur. Við mælum klárlega með því að þið prófið þessa rétti,“ segja matgæðingar 43. tölublaðs Feykis árið 2015, þau Ástrós Villa Vilhelmsdóttir og Guðni Már Lýðsson á Skagaströnd sem buðu upp á Lambaskanka með rótargrænmeti og ostaköku með Nóa kroppi og hindberjasósu í eftirrétt.

Aðalréttur
Lambaskankar með rótargrænmeti

2 lambaskankar
salt
2 msk. ólífuolía
1 laukur, saxaður
3 gulrætur, saxaðar
2 sellerístilkar, saxaðir
4 kartöflur, skornar í fernt
1 hvítlauksrif, pressað
300 ml vatn + 1 lambateningur
1 tsk. timíankrydd
½ tsk. rósmarínkrydd
1 tsk. oreganókrydd
1 lárviðarlauf 

Aðferð :
Kryddið lambaskankana með salti, setjið olíu á pönnu og brúnið kjötið á öllum hliðum. Takið af pönnunni og geymið. Steikið lauk, gulrót og sellerí á pönnu í um 4 mínútur og hrærið reglulega í. Bætið kartöflum saman við og eldið í aðrar 2 mínútur. Bætið því næst hvítlauk, lambaskönkum  og kryddi saman við og látið malla í 2 mínútur.
Bætið kjötkraftinum saman við og látið malla. Setjið í ofnfast mót með loki og látið í 150°c heitan ofn í um 1- 1½ klst, eða þar til kjötið er fulleldað en mjúkt (notið kjöthitamæli til að ofelda það ekki).
Skerið kjötið niður og blandið saman við grænmetið. Berið fram með kartöflumús og góðu salati.

Eftirréttur
Ostakaka með Nóa kroppi og hindberjasósu 

250 g Nóa kropp
6 dl þeyttur rjómi
300 g rjómaostur
180 g flórsykur
1½ tsk vanilludropar
400 g frosin hindber
2-3 msk. hrásykur

Aðferð:
Þessi er í uppáhaldi hjá okkur. Setjið Nóa kropp í eldfast mót eða annað fat og kremjið kúlurnar gróflega með flötum botni á glerglasi. Hrærið rjómaost, flórsykur og vanilludropa saman í skál og blandið þeyttum rjóma vel og vandlega saman við. Smyrjið ostablöndunni jafnt yfir Nóa kroppið og kælið.
Afþíðið hindberin í örbylgjuofni til þess að flýta fyrir og sjóðið í potti ásamt hrásykri. Látið krauma við vægan hita í 5-10 mínútur. Sigtið sósuna á meðan hún er heit og kælið. Hellið hindberjasósunni yfir ostakökuna og smyrjið henni jafnt á með skeið.
Kakan er best þegar hún hefur fengið að dvelja í frysti í 3-4 klukkustundir eða yfir nótt í ísskáp. 

Verði ykkur að góðu!

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir