Landbúnaður á Íslandi eykur framleiðni og minnkar losun til muna

Losun í landbúnaði hefur minnkað um 5,8% síðan 1990. Mynd: PF.
Losun í landbúnaði hefur minnkað um 5,8% síðan 1990. Mynd: PF.

Umhverfisstofnun skilaði skýrslu sinni til Loftslagssamnings Sameinuðu Þjóðanna (UNFCCC) á dögunum. Heildarlosun sem telst á beinni ábyrgð Íslands dregst saman um 2,1% ef landnotkun er skilin frá og 1% ef að landnotkun er tekin með. Losun á beinni ábyrgð Íslands er sú losun sem íslensk stjórnvöld munu þurfa að gera upp gagnvart skuldbindingatímabili Parísarsamkomulagsins.

Losun frá landbúnaði dregst saman um 2,1% milli áranna 2018 og 2019. Þar með hefur losun minnkað um 5,8% síðan 1990 - ólíkt flestum öðrum geirum þar sem að losun hefur aukist síðan 1990. Á sama tímabili hefur framleiðsla landbúnaðarafurða aukist um 71 þúsund tonn. Landbúnaðurinn eykur framleiðni sína stöðugt með aukinni þekkingu bænda og innleiðingu tækninýjunga og með þeim hætti verður minna að meiru.

Innleiða mælingar á kolefnisfótspori
„Við vorum að ljúka og gefa út samfélagsskýrslu þar sem umhverfis- og sjálfbærnistefna okkar kemur fram en við viljum vera leiðandi í þessum þáttum. Því náum við með því að framleiðslan hjá okkur sé alltaf fyrsta flokks og að öryggi og heilsa neytenda sé höfð að leiðarljósi. Við höfum reiknað út kolefnisfótspor starfseminnar með reiknilíkani Sambands garðyrkjubænda þar sem tekið er inn kolefnisspor salats frá fræi þar til salatið er tilbúið til dreifingar. Þar kemur í ljós að kolefnisspor Lambhaga er 1,11 CO2/kg sem við erum ansi sátt við,“ segir Hafberg Þórisson, eigandi Lambhaga og bætir við:

„Eins og fram kemur í stefnu Lambhaga þá er okkar framtíðarsýn að leggja okkar af mörkum til að gera Ísland sjálfbært í matvælaframleiðslu. Til að styðja við okkar framtíðarsýn vinnur Lambhagi með sérfræðingum frá Ábyrgum lausnum ehf. í að innleiða markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Við leggjum áherslu á að viðskiptavinir okkar geti tekið upplýsta ákvörðun um kaup og við viljum miðla traustum og gagnsæjum upplýsingum til haghafa, m.a. á vefsíðu okkar. Við viljum hafa hreina virðiskeðju og leggjum áherslu á heiðarlegt og siðferðislegt samstarf. Við viljum eiga viðskipti við birgja sem vinna markvisst með okkur að því að innleiða heimsmarkmiðin. Við viljum takmarka losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri fyrirtækisins, setja stefnu í umhverfismálum þar sem við höfum nú þegar innleitt mælingar og markmið sem draga úr kolefnisfótspori fyrirtækisins. Við viljum hlúa að nýsköpun í starfseminni, byggja upp trausta innviði, fylgja breytingum sem eiga sér stað og styrkja þannig samkeppnishæfni Íslands í matvælaframleiðslu til að mæta breyttri samfélagsgerð og breyttum þörfum til framtíðar.“

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir