„Laugardalsvöllur, hvar er það?“

Gísli bóndi í Grænukinn var ekki ánægður með viðtökurnar í Reykjavík um helgina. Ekki nóg með að hann væri sektaður fyrir að kasta af sér vatni heldur líka fyrir að leggja bílnum ólöglega. Segir hann að um tvö lambsverð að ræða  og telur það ansi hátt.
Gísli bóndi í Grænukinn var ekki ánægður með viðtökurnar í Reykjavík um helgina. Ekki nóg með að hann væri sektaður fyrir að kasta af sér vatni heldur líka fyrir að leggja bílnum ólöglega. Segir hann að um tvö lambsverð að ræða og telur það ansi hátt.

Landbúnaðarsýning fór fram í Reykjavík fyrir sunnan um helgina og herma fréttir að bærilega hafi til tekist. Gestir hvaðanæva að af landinu komu til að líta herlegheitin augum og flestir ánægðir. Það var þó einn sauðfjárbóndi úr Skagafirði sem hafði samband við Feyki og segir farir sínar ekki sléttar. „Ekki nóg með að einhver pilsaglenna meinaði mér að míga upp við vegg heldur mættu einhverjir kónar í júníformi sem bönnuðu mér að leggja bílnum mínum við þessa svokölluðu höll,“ segir Gísli Sölmundsson bóndi í Grænukinn í Vesturdal í Skagafirði.

„Ég var búinn að aka alla nóttina á Landróvernum og kom loksins á staðinn þar sem sýningin var að hefjast. Og ég var alveg í spreng enda búinn að drekka þó nokkuð á leiðinni. Ég snara mér út, reyndar hægra megin þar sem dyrnar eru bilaðar bílstjóra megin, og vippa mér að næsta vegg og létti á mér. Nei, þá heyrist þessi líka ljóti munnsöfnuður hjá konu nokkurri sem átti leið hjá. Það var nú ekki eins og ég ætlaði að spræna á hana! En þetta var miðaldra hvít kona og ekki þessleg að líka við mann eins og mig.“

Nú hvað meinarðu?

„Hvað meina ég? Nú, ég þurfti að sinna öðru erindi seinna um daginn, fara með forláta forngrip sem ég fann á Þjóðminjahúsið, en þekkti ekki leiðina þangað. Þegar konan sú arna hafði talað við mig með tveimur hrútshornum spurði ég í sakleysi mínu hvort hún gæti hjálpað mér. Þá varð hún alveg ær og hótaði mér einhverju sem ég skildi ekki. En þar sem ég var enn að kasta af mér vatni taldi ég að um einhvern misskilning væri að ræða og tjáði henni að það tengdist ekki þvaglátinu heldur væri ég með einstaklega dýrmætt djásn undir höndum sem þyrfti helst að komast á dásemdarstað sem hentaði sem best. Ég komst ekkert lengra með þá bón því nú varð frúin alveg brjáluð og sagðist ætla að sækja lögregluna.“

Þetta hefur verið krísuástand. Og kom löggan?

„Já, biddu fyrir þér, og þvílíkar mannleysur. Ég hélt auðvitað að þeir væru komnir til að ræða fund okkar konunnar og áður en þeir sögðu nokkuð reyndi ég að útskýra málið fyrir þeim. „Ja, strákar mínir,“ sagði ég „ég held að frúin hafi misskilið mig eitthvað þar sem djásnið sem ég var með …“ og þá áttaði ég mig á því að hugsanlega hafi frúin talið vitlaust þegar hún lagði saman tvo og tvo og fékk fimm ef ekki sex.“

Þetta er nú að verða spennandi. Og hvað gerðist svo?

„Ég eiginlega veit það ekki, ég varð svo annars huga yfir þessu. En þeir fóru að tala um hvort ég kynni ekki að leggja. Jú, sagði ég, hér stendur bíllinn og honum lagt eins og maður gerir í sveitinni. Maður finnur góðan grasbala og leggur þar. Þá fóru þessir kúðar að skammast og henda að mér háði. Svo segir annar þeirra: „Þú getur lagt á Laugardalsvelli.“ Nú, Laugardal þekki ég vel, jörð í Dalsplássinu, þar sem Héraðsdalur og Litli-Dalur eru. En ég mundi nú bara ekki eftir því að túnin þar væru kallaðir vellir svo ég spurði á móti. „Laugardalsvöllur, hvar er það?“ Þá fannst mér kárna gamanið hjá mér en greinilega ekki hjá þeim. Fóru þeir að hlægja og gera gys að mér, sektuðu mig um eitt lambsverð vegna ólöglegrar lagningar og annað vegna ósæmilegrar hegðunar á almannafæri, eins og þeir sögðu að það héti ef maður léti eftir köllun náttúrunnar og vökvaði fósturjörðina við eitthvert kúluhús sem þeir kalla höll. Svo sér maður það að þessir herramenn, sem báðir eru hvítir á miðjum aldri eru að gantast með þetta á einhverjum samfélagsmiðli, mbl.is. Svei þeim og öllum sem komu í veg fyrir að ég kæmist á þessa sýningu.“

Nú komstu ekki á sýninguna?

„Nei, þessir drengir sem eiga að þjóna okkur, íbúum þessa lands, sendu mig af stað á þennan völl en ekki vildi betur til en svo að ég villtist af leið og endaði uppi í Borgarfirði. Þegar þangað var komið sá ég að best væri að fara aftur í Skagafjörðinn enda ekkert að sækja í þessa svokölluðu borg. Ég á mínar borgir í Skagafirði.“

Hvað er svo framundan?

„Ég ætla að taka rúnt í Dalsplássið og prófa að leggja bílnum á túninu í Laugardal og sjá svo til. Jæja, ég má ekkert vera að þessu. Vertu blessaður."

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir