Leki kom að Degi SK

Dagur SK 17 Mynd:hafnir.skagafjordur.is
Dagur SK 17 Mynd:hafnir.skagafjordur.is

Leki kom upp í tog­bátnum Degi SK, sem er í eigu Rækjuvinnslunnar Dögunar, stuttu eftir hádegið í gær þar sem skipið var statt um fimm sjómílur úti fyr­ir Hafnarfirði. Voru björgunaraðilar þegar kallaðir til og sendir á vettvang.

Samkvæmt tilkynningu frá Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall kl. 13:33 í gær frá togskipi sem statt var fimm sjómílur vestur af Hafnarfirði vegna mikils leka í vélarrúmi. Þyrla Landhelgisgæslunnar var strax boðuð út ásamt  sjóbjörgunarsveitum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Einnig voru varðbáturinn Baldur, sem staddur var á Stakksfirði, björgunarbátar af varðskipinu Þór, sem statt var í Helguvík, og nærliggjandi skip og bátar kölluð út. 15 mínútum síðar tilkynnti áhöfn Dags að svo virtist sem þeir höfðu náð stjórn á lekanum.

Um kl. 14:30 var búið að dæla sjó úr vélarrúmi skipsins. Var hann dreginn til hafnar í Hafnarfirði en þangað kom hann á fimmta tímanum í gær.

Fimm manns voru um borð í skip­inu og varð þeim ekki meint af.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir