Líffæri ísbjarnarins ótrúlega lítið skemmd
Verið er að taka innan úr ísbirninum í þessum töluðu orðum. Feykir náði símasambandi við Vigni Kjartansson verkstjóra í sláturhúsi KS sem var fenginn til að hleypa innan úr dýrinu. Aðgerðin fer fram á ruslahaugunum. Að sögn Vignis er ótrúlegt hvað björninn er lítið skemmdur.
-Það er greinilegt að björninn hefur verið blóðtæmdur áður en grafið var yfir hann, segir Vignir. –Það sést náttúrulega að hann hefur verið dauður lengi en hann er ekki dragúldinn eins og ég bjóst við. Vignir getur ekki gefið upplýsingar um hvar björninn var látinn þiðna í nótt en telur að það taki nokkra stund enn að ná innan úr honum.
–Hann er náttúrulega ekki alveg þíður í gegn en þeir vildu fara strax í þetta, þá væri minni hætta á að sýni myndu eyðileggjast. Ég hef aldrei verið svona lengi að taka innan úr nokkurri skepnu, segir Vignir og telur að þeir eigi eftir að vera minnst klukkutíma enn. –Ég er með hálfgerðan rakhníf við verkið því ég má ekki skera í vömbina.
En af hverju er verið að taka innan úr birninum á ruslahaugunum? –Ja, ég veit það ekki alveg, en það var tekið innan úr Þverárfjallsbirninum hérna í sumar. Ætli það sé ekki út af því að hann má í rauninni hvergi koma inn í hús út af hættu á tríkínusmiti, segir Vignir en eins og kunnugt er fundust tríkínur í Þverárfjallsbirninum.