Litið við hjá ferðaþjónustuaðilum - Á slóðum Sölva Helgasonar í Sléttuhlíð

Lónkot í Sléttuhlíð. Málmey í bakgrunni. Mynd: FE
Lónkot í Sléttuhlíð. Málmey í bakgrunni. Mynd: FE

Þegar ekið er um Sléttuhlíðina, í utanverðum Skagafirði að austan, hlýtur margan ferðamanninn að fýsa að staldra við enda er útsýnið þar út til fjarðarins einstaklega fallegt, Málmeyjan rétt undan landi, Þórðarhöfðinn rétt innan seilingar og í bakgrunninum standa Drangey og Kerlingin sinn vörð.

Í Lónkoti í Sléttuhlíð, miðja vegu milli Sauðárkróks og Siglufjarðar, hefur um margra ára skeið verið rekin þjónusta við ferðamenn. Blaðamaður leit við í Lónkoti og hitti þar fyrir hjónin Júlíu Þórunni Jónsdóttur og Þorgils Heiðar Pálsson sem reka staðinn.

Starfsemina í Lónkoti má rekja allt aftur til ársins 1990 þegar foreldrar Júlíu, Jón Torfi Snæbjörnsson og Ólöf Ólafsdóttir, opnuðu ferðaþjónustu í gömlu fjárhúsunum á bænum sem þau

Veitingasalurinn í Lónkokti. Mynd: FE

höfðu breytt í gistiheimili. Þau létu ekki þar við sitja og fimm árum síðar bættist svo veitingastaðurinn við þar sem áður var fjós og haughús. Samhliða var vígður minnisvarði um listamanninn Sölva Helgason sem fæddur var á Fjalli í Sléttuhlíð en myndir eftir hann prýða veggi staðarins og eru þær sannkölluð listaverk. Nú hafa Jón og Ólöf dregið sig út úr rekstrinum og er hann nú í höndum Júlíu og Þorgils.

Nýta allt sem veiðist og vex

Allir réttir á matseðlinum í Lónkoti eru matreiddir úr hráefni úr héraði og er staðurinn aðili að Matarkistu Skagafjarðar og einnig að Slow Food. Júlía segir það alla tíð hafa verið haft að leiðarljósi í matseldinni að nýta allt sem veiðist og vex í nærumhverfinu. Sem dæmi um mat sem er á boðstólum má nefna ferskan þorsk úr firðinum, lunda, á þeim tíma sem hann er veiddur, silung og fjallalamb, afurðir úr rabarbara, bláber og grænmeti úr eigin garði. Einnig nýta þau margs kyns blóm og jurtir sem vaxa villt í náttúrunni sem krydd og meðlæti, svo sem fíflablöð og hundasúrur, blóðbergið sem vex villt út um allt og er bæði fallegt og bragðgott og ekki má gleyma túnsúrukrapís og fjóluís sem framleiddur er á staðnum.

Í Lónkoti er lögð áhersla á að baka og elda allan mat frá grunni og eru réttirnir á matseðlinum að nokkru leyti mismunandi eftir tímabilum, allt eftir því hvaða

Fjóluís, heimatilbúinn úr fjólum sem vaxa villtar í náttúrunni við Lónkot. Mynd: Júlía Þ. Jónsdóttir

hráefni standa til boða hverju sinni.

Hægt er að taka á móti 16 manns í gistingu í Lónkoti, í fjórum tveggja manna herbergjum, einu þriggja til fjögurra manna og svo er þar fimm manna fjölskyldusvíta. Einnig stendur til boða að tjalda og fá þeir tjaldgestir sem kaupa sér mat á veitingastanum frítt á tjaldstæðinu.

Í Lónkoti hefur alla tíð verið rekin menningartengd ferðaþjónusta og lögð mikil rækt við að tengja hana við sögu svæðisins. Eins og áður var nefnt hefur Sölva Helgasyni alltaf verið gert þar hátt undir höfði en einnig er á staðnum minnisvarði um landnámsmanninn Höfða-Þórð sem nam land á svæðinu. Eins er þar minnismerki um hina fjölkunnugu Ólöfu í Lónkoti sem gerði sér til gamans að glettast við hinn göldrótta nágranna sinn, Hálfdán prest í Felli, sem tjaldhringurinn á túninu í Lónkoti, Hálfdánarhringur, dregur nafn sitt af.

Af nógu er að taka vilji fólk njóta náttúrunnar á svæðinu. Bærinn stendur nánast í fjöruborðinu og eru góðar gönguleiðir meðfram ströndinni og þá er Þórðarhöfðinn stutt frá vilji fólk leggja upp í lengri gönguferðir.

Júlía og Þorgils bera fram girnilega rétti úr skagfirsku hráefni. Mynd: FE

Opið er í Lónkoti frá því í byrjun maí og til loka septembermánaðar.

 

Áður birt í 27. tbl. Feykis 2018.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir