Litið við hjá ferðaþjónustuaðilum - Boðið á bæi í Lýtingsstaðahreppi

Geitur á Stórhóli. Myndr FE
Geitur á Stórhóli. Myndr FE

Á þremur bæjum í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði hafa bændurnir tekið sig saman og reka undir sama merki ferðaþjónustu þar sem boðið er heim á bæina og er samheiti fyrir staðina þrjá „The Icelandic farm animals“ . Bæirnir sem hér um ræðir eru Sölvanes, Lýtingsstaðir og Stórhóll sem standa með stuttu millibili við veg númer 752, um 20 kílómetra inn af Varmahlíð. Blaðamaður heimsótti konurnar þrjár sem að verkefninu standa, þær Eydísi Magnúsdóttur í Sölvanesi, Evelyn Ýr Kuhne á Lýtingsstöðum og Sigrúnu Indriðadóttur á Stórhóli og forvitnaðist um hvað þær hefðu upp á að bjóða.

Upphafið að samstarfi þessara þriggja kvenna var sú hugmynd að þær gerðu eitthvað með húsdýrin sín og byðu heim á býli. Í framhaldi af því sóttu þær um styrk í Uppbyggingarsjóð SSNV og vörðu styrknum til að láta hanna bæklinga, setja upp skilti og búa til ratleik sem nær til allra þriggja bæjanna. Auk þess voru stofnaðar síður á samfélagsmiðlum.við facebook og instagram síður og höldum utan um þær.

Sauðfé í Sölvanesi

Í fjárhúsunum í Sölvanesi. Máni Baldur Mánason, Eydís Magnúsdóttir og Lilja Haflína Þorkelsdóttir.

Þegar fólk pantar fær það ákveðið tímaplan í hendur yfir það á hvaða tíma er tekið á móti því á hverjum stað. Hver bæjanna þriggja stendur fyrir eitthvert dýr. Eydís og fjölskylda hennar er með fjárbúskap. Hún sýnir gestum sínum fjárhúsin og segir þeim frá hringrásinni árið um kring á sauðfjárbúinu, hvar ærnar beri og hvað taki svo við, bendir á fjallið þar sem ærnar ganga á sumrin og segir frá göngum og réttum. Í fjárhúsunum er hún einnig með ýmsa hluti sem tengjast búskapnum fyrr og nú s.s. heynálar og brennijárn sem notuð voru til að merkja féð. Á sumrin eru oftast einhverjir heimaalningar til að sýna gestum og einnig er Eydís með Border Collie hund og sýnir gestum hvernig hann vinnur. Einnig fá gestir að sjá og klappa kanínum og ketti og sjá hænurnar á bænum.

Gestum er svo boðið í kaffi og segir hún að mörgum erlendum gestum þyki skemmtilegt að fá að koma inn á íslenskt heimili. Þar sýnir hún fólki myndir af svæðinu frá mismunandi árstímum og bækur með ýmsum fróðleik varðandi sauðfjárbúskap. Áhugasvið fólks er misjafnt, sumir eru forvitnir um land og þjóð, aðrir spyrja um landbúnaðinn vítt og breitt, enn aðrir bara um sauðféð. Mikið sé um vel menntað fólk sem hefur til dæmis áhuga á að fá að vita um gagnagrunna fyrir búfé, um líffræðilega eiginleika sauðkindarinnar og að bera saman við önnur lönd eða sauðfjárkyn. Eydís segir að alltaf sé gaman að benda á hver sé sérstaða íslensks landbúnaðar.

Í Sölvanesi er rekin heimagisting í eldra íbúðarhúsinu en foreldrar Eydísar byrjuðu með hana árið 1990. Á bænum er hægt að kaupa afurðir frá búinu.

                                                                                             Hestar og torfhús á Lýtingsstöðum

Evelyn á Lýtingsstöðum við „gamla" hesthúsið.

Á Lýtingsstöðum eru hestarnir í öndvegi þó þar séu vissulega fleiri dýr, s.s. hundar og kindur. Þau hjónin hafa boðið upp á hestaferðir í 18 ár, bæði stuttar og langar og eiga orðið tryggan hóp viðskiptavina. Evelyn er fædd og uppalin í Þýskalandi og segir hún að stór hluti viðskiptavinanna sé þýskumælandi fólk sem þyki þægilegt að geta gengið að samskiptum á móðurmálinu. Evelyn átti sér þann draum að hafa eitthvað meira fyrir gesti sína til að upplifa og fékk þá hugmynd að byggja hesthús úr torfi þannig að fólk gæti séð hvernig hlutirnir voru í gamla daga. Fyrir þremur árum voru svo húsin byggð en það gerði Helgi Sigurðsson á Ökrum sem hefur séð um viðgerðir og uppbyggingu margra bygginga á vegum Þjóðminjasafnsins. Í húsunum eru ýmsir gamlir munir til sýnis, hnakkar, og fleiri reiðtygi, klyfberar og ýmislegt fleira.

Evelyn segir torfhúsin hafa verið mjög vinsæl og hafa aðdráttarafl. Hún hefur útbúið hljóðleiðsögn um húsin á fjórum tungumálum, íslensku, ensku, þýsku og frönsku og brátt bætist ítalska við. Evelyn segist hafa leitast við að hafa leiðsögnina lifandi, tala við fólkið, spyrja spurninga og vísa því hingað og þangað. Þetta hefur mælst mjög vel fyrir og segir Evelyn að fyrir hafi komið að fólk úr stórborgum heims, eins og Hongkong, hafi grátið af gleði yfir þeirri upplifun að standa í „moldarkofa“.

Á Lýtingsstöðum er einnig boðið upp á gistingu í þremur sumarhúsum og í íbúðarhúsinu. 

Landnámsgeitur á Stórhóli

Á Stórhóli fá gestir að kynnast landnámsgeitinni en þar eru einnig hænur, endur, kindur, kanínur og  hundar. Einnig rekur Sigrún Gallerí Rúnalist á Stórhóli þar sem hún selur handverk sitt sem er mjög fjölbreytt, til að mynda vinnur hún úr ull og skinnum, hannar gestabækur, skreytir tertur og gerir nánast allt sem nöfnum tjáir að nefna. Sigrún er einnig félagi í og ritari Beint frá býli og selur ýmsar afurðir búsins í galleríinu.

Sigrún á Stórhóli gefur geitunum sínum.

Geiturnar njóta mikilla vinsælda. Þeim er hægt að klappa, gefa mat og spjalla við þær, heyra af þeim sögur,fræðast um íslensku landnámsgeitina sem enn er í útrýmingarhættu en stofninn er merkilegur þar sem hann er sá sami frá landnámi og ekki mátti miklu muna að hann yrði útdauður snemma á síðustu öld. Sigrún segir þau hafa verið með geitur frá 2012 en þær voru nokkurs konar sárabót hjá henni og syni hennar eftir að þau misstu margar kindur í slæmu haustveðri sem þá gekk yfir. Nú hefur geitunum fjölgað og þetta vorið báru 20 geitur sem eiga 34 kiðlinga. Auk þess eru þrír fullorðnir hafrar og þrír veturgamlir geldingar.

Sigrún segir að það að vera meðlimur í Beint frá býli hafi hvatt hana við að koma afurðum búsins á framfæri. Matarsmiðjan á Skagaströnd hafi svo verið kærkomin viðbót til að gera vöruna verðmætari og geri henni kleift að bjóða upp á smakk af afurðum búsins, til dæmis einhverju sem er öðruvísi eins og úrbeinað kiðlingakjöt eða grafið ærkjöt. 

Að sögn kvennanna hefur samstarfið komið mjög vel út og verið skemmtilegt auk þess sem þær finna styrk í að vinna saman og skipuleggja hlutina í sameiningu. Þær segja að hjá þeim sé talsvert rennerí árið um kring og til gamans má nefna að komið hefur fyrir að fólk komi alla leið sunnan frá Reykjavík í þeim eina tilgangi að heimsækja þær. Heimsóknum hefur fjölgað síðan þær tóku upp þennan hring, margir koma og gista á Lýtingsstöðum og í Sölvanesi en fólk sem gistir á öðrum stöðum í nágrenninu kemur líka og kíkir til þeirra. Ferðamönnum finnist það vera „ekta“ að heimsækja þær og þar geti þeir fengið svör við mörgum spurningum sem ekki sé svarað í ferðabæklingum. Gestirnir koma alls staðar að úr heiminum en gaman væri ef fleiri Íslendingar kæmu við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir