Ljóti andarunginn á Sauðárkróki og Blönduósi
Nú er Leikhópurinn Lotta á ferðalagi um landið með sýningu sína, Ljóta andarungann. Í dag kl 18:00 verður sýning í Litla skógi á Sauðárkróki og á laugardaginn, 1. júlí kl. 11:00 verður sýnt á Káratúni á Blönduósi.
Leikhópurinn Lotta hefur ferðast um landið undanfarin ár með fjölskyldusýningar sem höfða helst til yngri kynslóðarinnar. Sýningin sem hópurinn býður upp á að þessu sinni er glænýtt ævintýri um Ljóta andarungann. Inn í söguna blandast fjögur önnur ævintýri. Það eru Öskubuska, Kiðlingarnir sjö, Hérinn og skjaldbakan og Prinsessan á bauninni. Höfundur og leikstjóri er Anna Bergljót Thorarensen.
Leikendur eru:
Andrea Ösp Karlsdóttir - Andarungi, Litli kiðlingur og Góða konan.
Helga Ragnarsdóttir - Öskubuska og Úlfurinn.
Sigsteinn Sigurbergsson - Andapabbi, Hekla, kiðlingur og Hérinn.
Stefán Benedikt Vilhelmsson - Andarunginn, Prins, kiðlingur, Geitapabbi, Skjaldbakan og Ekki svo góði maðurinn.
Sumarliði V Snæland Ingimarsson - Ljóti andarunginn og Kóngur.
Þórunn Lárusdóttir - Andamamma, Katla og kiðlingur.
Miðaverð á sýninguna er 2.300 kr. Leikhópurinn beinir þeim tilmælum til áhorfenda að klæða sig eftir veðri og hafa meðferðis teppi til að sitja á. Einnig er bent á að vinsælt er að láta mynda sig með persónum eftir sýninguna svo ráðlegt er að muna eftir myndavélinni eða símanum.