Lýðræði og mannréttindi - Ný aðalnámskrá grunnskóla nýjar áherslur
Lýðræði og mannréttindi var til umfjöllunar á fræðslufundi í Félagsheimilinu á Hvammstanga þann 27. febrúar sl. Þátttakendur voru níutíu og þrír og létu mjög vel af fræðsludeginum. „Í starfi skólanna í vetur hefur miklum tíma verið varið til að skoða hvað verið er að gera og hvað gera þarf frekar til að vinna í anda nýrrar aðalnámskrár og efla áherslur grunnþáttanna sex í skólastarfinu,“ segir í fréttatilkynningu.
Samkvæmt tilkynningunni eru grunnþættirnir sex: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Ný aðalnámskrá og grunnþættirnir sex eiga að vera okkur leiðarvísir og fyrirmynd um áherslur, vinnulag og framsetningu í skólastarfinu.
Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum- Save the Children á Íslandi, kom á fræðslufundinn og fræddi viðstadda um helstu áherslur og verkefni til að efla áherslur lýðræðis og mannréttindi í skólum sýslnanna.
Á námskeiðinu var unnið með eftirfarandi verkþætti:
- Af hverju að kenna um mannréttindi og lýðræði í grunnskóla? -alþjóðlegir samningar, lög, aðalnámskrá og samfélagslegir þættir.
- Grunnþættir menntunar, hvernig þeir samþættast og eiga að vera samofnir öllu skólastarfi.
- Grunnþátturinn mannréttindi og lýðræði.
- Mannréttindi barna og réttur barna til að taka þátt og hafa áhrif.
- Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna- mannréttindasamningur sem á við um öll börn.
- Hvernig geta skólar innleitt grunnþáttinn mannréttindi og lýðræði í daglegt skólastarf, námsgreinar, með námshópum og í samvinnu við grenndarsamfélagið?
„Það eru gömul sannindi og ný að engin raunveruleg þróun verður í skólastarfi nema fyrir tilstuðlan kennara og skólastjórnenda. Lengi má lagfæra menntastefnu, skipulag, námsgögn og skólabyggingar en ef breytingum er ekki fylgt eftir í skólunum skila þær ekki árangri. Innleiðing nýrrar hugsunar í skólastarfi byggist á góðri samvinnu menntayfirvalda við þá sem bera hitann og þungann af skólastarfinu,“ er loks vitnað í Katrínu Jakobsdóttir, fyrrum ráðherra mennta-og menningarmála, í tilkynningu.