Lýsa furðu sinni á því að ekki hafi verið látið reyna á nýjan samning um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra

Sambýlið á Blönduósi. Mynd: PF.
Sambýlið á Blönduósi. Mynd: PF.

Byggðaráð Blönduósbæjar harmar bókun byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar, frá 9. september sl., um að enda það samstarf sem verið hefur í 20 ár á Norðurlandi vestra um málefni fatlaðs fólks, sérstaklega þar sem Sveitarfélagið Skagafjörður hefur í því samstarfi á síðustu árum verið svokallað „Leiðandi sveitarfélag“ og því hefur stór hluti fagþekkingar og þjónustu verið byggður upp í Skagafirði. Þetta kemur fram í bókun ráðsins sl. fimmtudag.

Þá lýsir byggðaráð furðu sinni á því að ekki hafi verið látið reyna á nýjan samning, á milli þeirra sveitarfélaga sem lýst höfðu áhuga sínum á að halda samstarfinu áfram, á svipuðum forsendum og verið hefur.

Forsenda málsins er sú að fyrr í sumar ákvað byggðarráð Húnaþings vestra að endurnýja ekki samning nokkurra sveitarfélaga um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra sem rennur út um næstu áramót. Varð þá strax ljóst að samningurinn yrði í uppnámi enda ákvað byggðarráð Svf. Skagafjarðar á fundi sínum í síðustu viku að draga sig einnig út úr samstarfinu. Taldi byggðarráð farsælast að Sveitarfélagið Skagafjörður sinni málefnum fatlaðs fólks eingöngu innan sinna sveitarfélagamarka þegar gildandi samningur rennur út.

Blönduósbær mun í framhaldinu leita leiðbeininga og álits Félagsmálaráðuneytis, vegna faglegrar umgjarðar á þjónustu við fatlað fólk á svæðinu og einnig til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um fjárhagslegar forsendur málsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir