Mangó sett í aðhald

Brynjar Þór með Magnó og Kiwi. Aðsend mynd
Brynjar Þór með Magnó og Kiwi. Aðsend mynd

Deguar eru lítil loðin nagdýr, ljósbrún að lit og með gula flekki. Þeir geta orðið 25-31 sm og um 170-400 grömm. Lífslíkur eru yfirleitt um sex til átta ár en geta verið allt að 13 ár. Þessir litlu loðboltar eru mikil félagsdýr og eru mjög virk á daginn og hafa góða sjón. Þeir eru gjarnir á að naga plast og verða því að vera í málmbúrum. Þeir gefa frá sér um 15 sérstök hljóð sem þeir tjá sig með.

Deguar hafa verið vinsæl gæludýr en Brynjar Þór Halldórsson, sonur Halldórs Gunnlaugssonar og Hildar Þóru Magnúsdóttur á Ríp 3 í Hegranesi, á tvo svona krúttbolta sem heita Mangó og Kiwi. Feyki langaði aðeins til að forvitnast um þessa krúttlegu ávaxtabolta hans.

Hvernig eignaðist þú Mangó? Ég eignaðist Mangó eftir að hafa beðið mömmu og pabba um eðlu. Þau voru ekki mjög hrifin af því en buðu mér loks að fá degu. Mangó kom til okkar í apríl sl. frá dýragarðinum Hraðastöðum í Mosfellsdal.

Hvað er skemmtilegast við gæludýrin þín? Mér finnst skemmtilegast að horfa á þær klifra og læra nýja hluti.

Hvað er erfiðast? Mér finnst erfiðast að þrífa búrin þeirra. En það er mjög stórt og ég þarf að þrífa það einu sinni í viku.

Ertu með einhverja sniðuga eða merkilega sögu af gæludýrinu? Okkur fannst Mangó eitthvað hafa fitnað, um þremur mánuðum eftir að hún kom til okkar. Við vorum búin að lesa að það væri hættulegt ef þær fengju of mikið að borða svo við fórum að halda í við hana. Eftir nokkra daga í aðhaldi birtust hins vegar öllum að óvörum fimm litlir deguungar í búrinu hjá henni. Og vá hvað við skömmuðumst okkar. Þetta bara datt okkur ekki í hug enda héldum við ekki að meðgöngutíminn gæti verið svona langur en hann er 90 dagar.

Feykir þakkar Brynjari kærlega fyrir að hafa svarað spurningum um gæludýrið sitt

Sigga sigga sigga

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir