Matarsending sem lífgar heldur betur upp á tilveruna

Hún var góð sendingin sem Hlynur og Silla fengu frá B&S Restaurant á Blönduósi, kotilettur með öllu. Aðsend mynd.
Hún var góð sendingin sem Hlynur og Silla fengu frá B&S Restaurant á Blönduósi, kotilettur með öllu. Aðsend mynd.

Framtak þeirra Björns Þórs Kristjánssonar og Söndru Kaubriene, sem eiga og reka veitingastaðinn B&S Restaurant á Blönduósi, hefur mælst vel fyrir hjá bæjarbúum en þau hafa sent öllum Blönduósingum 70 ára og eldri frían kvöldmat heim að dyrum. Gullborgararnir Hlynur og Silla eru yfiir sig hrifin og senda hjartans þakkir til Björns Þórs og Söndru.  

„Fengum heim að dyrum dýrindis kvöldmat, kótilettur með öllu tilheyrandi eins og allir Gullborgara á Blönduósi, sem eru 70 ára og eldri. Þetta er á annað hundrað manns. Þvílíkt framtak.,“ segir í skeyti Hlyns og Sillu til Feykis. Þau segja að ef eitthvað geti glatt gömul hjörtu, sé það einmitt svona dásamleg gjöf sem lífgar heldur betur upp á tilveruna.

Til að sýna þakklæti sitt með viðeigandi hætti fengu þau einn úr ættinni til að semja fyrir sig vísu, sem fangar stemninguna vel.

Er veiran heiminn herjar á
með hörmulegum fréttum.
Gullborgara gleðja þá,
gæðahjón með kótilettum.
/ÞÞH

„Svo kom önnur sem við látum fylgja með:
Nú gamlingjarnir gæða sér
á girnilegum réttum.
Falskar tennur fanga hér
fullt af kótilettum.
/ÞÞH

 Enn og aftur takk fyrir okkur.“

 

Tengd frétt: B&S sendir öllum 70 ára og eldri frían kvöldmat

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir