Meira slátrað hjá SAH afurðum í ár en í fyrra
Sláturtíð er formlega lokið hjá SAH afurðum ehf. en að þessu sinni var slátrað 92.381 fjár og var meðal fallþungi 15,88 kíló sem er 640 grömmum meira en í fyrra. Að sögn Sigurðar Jóhannessonar, framkvæmdastjóra, gekk sláturtíðin vel og slátursala hefur aldrei verið meiri en þetta haustið.
Erlendir farandverkamenn sem verið hafa í sláturtíð fara að huga að heimferð. Sigurður segir að þrátt fyrir að samið hafi verið um millifærslu á launum þessa fólks hafi ekki allir treyst því að það gangi eftir og farið daglega með farseðilinn sinn í banka og millifært þær 50 þúsund krónur sem má á dag yfir í evrur. -Síðan hefur fólk haft áhyggjur af því hvert gengið
verði við næstu útborgun, enda gengi sveiflast mjög mikið til og frá, og því ákveðinn óróleiki í fólkinu, segir Sigurður sem óttast að ástandið verði til þess að ekki snúi allir aftur að ári en SAH afurðir hafa rekið sláturtíðina
á mikið til sömu fjölskyldum í áraraðir.
Hvað framhaldið varðar segir Sigurður að engar uppsagnir séu fyrirhugaðar. -Fólk þarf áfram að borða og við munum gera okkar til þess að allir hafi nóg að borða. Sala á ódýrara kjöti hefur gengið vel þetta haustið, ekki síst
hrossakjöti en dýrara kjötið gengur hægar í sölu. Allt potast þetta þó, segir Sigurður