Mestar meðalafurðir á Brúsastöðum í Vatnsdal

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur gefið út niðurstöður skýrsluhaldsársins í mjólkurframleiðslunni 2017 en þar kemur fram að mesta meðalnyt eftir árskú á nýliðnu ári, hafi verið á Brúsastöðum í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu, 8.937 kg á árskú. Það heggur nærri Íslandsmetinu sem sama bú setti í fyrra, 8.990 kg.

Á vef Ráðgjafarmiðstöðvarinnar, rml.is, segir að auk þess að verma toppsætið í fyrra hafi búið á Brúsastöðum einnig verið það afurðahæsta árin 2013 og 2014. „Þessi árangur þeirra hjóna Gróu Margrétar Lárusdóttur og Sigurðar Eggerz Ólafssonar á Brúsastöðum undanfarin ár er stórglæsilegur og allrar athygli verður, segir í samantekt RML.

Mestar meðalafurðir 2017 voru í Skagafirði eða 6.537 kg eftir árskú. Meðalbústærð reiknaðist 45,4 árskýr á árinu 2017 en sambærileg tala var 43,5 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 60,9 kýr en 2016 reiknuðust þær 59,5.

Fimmtán bú eru með meðalnyt yfir 8.000 kg á árskú og eru tvö þeirra í Austur-Húnavatnssýslu og þrjú í Skagafirði. Þau eru auk Brúsastaða, Steinnýjarstaðir í Skagabyggð með 8.170 kg, og skagfirsku búin Flugumýri 8.205, Kúskerpi 8.115 kg og Garðakot 8.019 kg.

Af þeim kúm sem enn eru á lífi í dag er Braut 112 á Tjörn á Skaga í öðru sæti yfir þær sem mestum æviafurðum hafa skilað. Braut er dóttir Stígs 97010, fædd 12. september 2005 og því á þrettánda aldursári. Hún átti sinn fyrsta kálf 23. október 2007 og hefur alls borið tíu sinnum að meðtöldum tveimur fósturlátum. Þrátt fyrir þau áföll er Braut nú búin að mjólka 91.300 kg mjólkur en mestum afurðum á einu almanaksári náði hún 2011, 10.961 kg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir