Mikil ásókn í strandveiðileyfi

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, undirritaði s.l. mánudag reglugerð um strandveiðar sem hefjast þann 10. maí. 26 umsóknir hafa borist frá norðvestursvæðinu.

Fyr í vikunni hófst móttaka umsókna um strandveiðileyfi hjá Fiskistofu og ljóst er að hinn góði árangur veiðanna í fyrra hefur mörgum orðið hvatning. Á þessum fyrsta sólarhring hafa Fiskistofu borist 331 umsókn um strandveiðileyfi.

Landinu er skipt í fjögur veiðisvæði. Leyfi til strandveiða eru veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðaraðila viðkomandi báts er skráð og eingöngu er heimilt að landa afla innan þess landsvæðis á veiðitímabilinu.

•          Svæði A: Eyja- og Miklaholtshreppur til Súðavíkurhrepps. Í hlut þess koma 499 tonn í maí, 599 tonn í júni, 599 tonn í júlí og 299 tonn í ágúst.

•          Svæði B: Strandabyggð  til Grýtubakkahrepps. Í hlut þess koma 355 tonn í maí, 426 tonn í júní, 426 tonn í júlí og 213 tonn í ágúst.

•          Svæði C: Þingeyjarsveit til Djúpavogshreppar. Í hlut þess koma 384 tonn í maí, 461 tonn í júní, 461 tonn í júlí og 231 tonn í ágúst.

•          Svæði D: Sveitarfélagið Hornafjörður til Borgarbyggðar. Í hlut þess koma 419 tonn í maí, 366 tonn í júní, 157 tonn í júlí og 105 tonn í ágúst. 

Mjög misjafnlega er sótt í veiðisvæðin, 179 umsóknir hafa borist á svæði A, 26 á svæði B, 54 á svæði C og 72 á svæði D.

Allir þeir sem ætla sér á veiðar fyrstu daga strandveiðitímabilsins eru hvattir til að drífa í að sækja um. Fiskistofa tekur nú rafrænt á móti umsóknum um strandveiðileyfi á heimasíðu sinni: www.fiskistofa.is.

Það er líklegt að nokkur aukning verði í fjölda þeirra sem stunda munu strandveiðar í sumar sé litið til fjölda umsókna á þessum fyrsta sólarhring, en í fyrra stunduðu 554 bátar þessar veiðar.

Fleiri fréttir