Mikil mildi að ekki fór verr
Lögregla telur að gassprenging hafi orðið í sumarbústað í Langadal, skammt frá Geitaskarði, síðastliðinn laugardagsmorgun. Sex ungmenni voru í sumarbústaðnum þegar sprengingin varð og þykir mikil mildi að ekki fór verr en þrjú þeirra voru flutt til aðhlynningar á sjúkrahúsið á Akureyri. Rætt var við eitt þeirra á vef Fréttablaðsins í dag.
Aron Kristján Sigurjónsson, sem var staddur ásamt fimm öðrum í bústaðnum, segir að hann hafi vaknað upp við það um elleftu leytið á laugardagsmorgun að spýta, trúlega úr efri koju, féll í andlit hans svo honum blæddi mikið og brak úr lofti og veggjum hússins hrundi yfir hann og kærustu hans. „Við vöknum við sprengingu sem olli því að sumarbústaðurinn fór vægast sagt í tætlur,“ segir Aron í samtali við Fréttablaðið. Herbergið sem þau sváfu í var við hliðina á skúr þar sem talið er að sprengingin hafi orðið. Hann segir að sexmenningarnir hafi komið í bústaðinn kvöldið áður og skemmt sér við spilamennsku en ekki komið nálægt neinum gastækjum í bústaðnum.
Aron segir viðbragðsaðila hafa verið örsnögga á vettvang og er hann þakklátur fyrir að ekki fór verr en hann fékk stóran skurð á höfuð, tönn í neðri gómi brotnaði og einnig er hann tognaður og marinn víða um líkamann. Þá hlaut kærasta hans áverka á líkama.
Sjá má myndir af vettvangi á vef Fréttablaðsins.