Minjastofnun gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarpsdrög umhverfisráðherra

Minjastofnun Íslands hefur sent inn umsagnir um drög að frumvörpum til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða annars vegar og Hálendisþjóðgarð hins vegar en ljóst þykir stjórnendum að útgjöld Minjastofnunar og vinnuálag muni aukast verulega með stofnun þjóðgarðs. Þykir því nauðsynlegt að efla Minjastofnun Íslands eigi að vera hægt að uppfylla markmið þjóðgarðsins um verndun menningarminja.

„Ljóst er að verði frumvörpin að lögum óbreytt, mun það hafa veruleg áhrif á framkvæmd minjavörslu í landinu og skapa óvissu um stjórnsýslu málaflokksins á um 40% landsins. Minjastofnun gerir alvarlegar athugasemdir við þessi frumvarpsdrög og bendir á að stofnunin hefur ekki haft aðkomu að gerð þeirra. Ekki hefur verið tekið nægilegt tillit til laga um menningarminjar nr. 80/2012 og starfssviðs Minjastofnunar Íslands.

Minjavarsla á Íslandi á sér langa hefð og byggir í grunninn á lögum um verndun fornmenja frá 1907. Í frumvarpsdrögum skortir heildarsýn um hvernig framkvæmd minjavörslu er háttað í landinu, í þjóðgörðunum og á friðlýstum náttúruverndarsvæðum,“ segir á heimasíðu MÍ en þar kemur einnig fram að Minjastofnun líti svo á að aukið hlutverk þjóðgarða við vernd og eftirlit með menningarminjum geti orðið til heilla fyrir framkvæmd minjavörslu í landinu. Mikilvægt þykir þó að hin nýju lög verði ekki til þess að flækja umhverfi minjavörslunnar og skapa óvissu um valdsvið og hlutverk stofnana eins og yrði ef ekki verður unnið betur með frumvarpið.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir