Minki fjölgar ár frá ári

Myndin er tekin af forsíðu Bændablaðsins og sýnir Jón ganga á föll í Fljótum í leit að mink.
Myndin er tekin af forsíðu Bændablaðsins og sýnir Jón ganga á föll í Fljótum í leit að mink.

Á forsíðu nýjasta tölublaðs Bændablaðsins sem út kom í dag er rætt við Jón Númason, bónda og minkaveiðimann á Þrasastöðum í Fljótum um uppgang villiminks í Skagafirði. Að sögn Jóns hefur minki úti í náttúrunni fjölgað mikið undanfarin ár og sé hann að verða stærri og öflugri en áður var. Telur hann að ástæðuna megi fyrst og fremst rekja til þess að minkaveiðum sé ekki sinnt sem skyldi enda séu þær ekki ýkja vel launaðar.

Á fundi landbúnaðarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar þann 30. apríl sl. kemur fram að landbúnaðarnefnd hefur áhyggjur af uppgangi minks innan sveitarfélagsins og hvetur menn til að halda vöku sinni. Á fundinum var samþykkt áætlun um minka- og refaveiði ársins 2019. Samkvæmt henni skal greiða vegna refaveiða ráðinna veiðimanna 20.000 kr. fyrir grendýr, 7.000 kr. fyrir hlaupadýr og vetrarveiði. Verðlaun til annarra fyrir unninn ref 7.000 kr. Vegna minkaveiða ráðinna veiðimanna verða greiddar 7.200 kr. fyrir unnið dýr og verðlaun til annarra verða 1.800 kr. á dýr.

Í viðtali Bændablaðsins við Jón, sem sér um veiðar í Fljótunum, kemur fram að minknum fjölgi ár frá ári og segir hann að ekki sé lengur hægt að skella skuldinni á dýr sem sleppi úr búrum á minkabúum þar sem búum hafi fækkað gríðarlega á liðnum árum og nú sé einungis eitt slíkt eftir í Skagafirði.
„Fyrst og fremst má rekja uppgang minks í íslenskri náttúru til þess að veiðum er ekki sinnt sem skyldi. Það má svo eflaust rekja til þess að launin eru ekki ýkja góð, þau eru byggð þannig upp að greitt er fyrir veidd dýr, en oft er staðan sú að maður er á ferðinni heilan dag við leitir og finnur ekki neitt, veiðir ekkert dýr og fær þá engin laun. Það verður svo til þess að áhugi á veiðum dalar, minkurinn fær frið og honum fjölgar,“ segir Jón í viðtalinu.

Þá segir Jón að dýrin séu nú orðin stærri og þyngri en áður. Einnig hafi minkurinn víkkað búsvæði sín og leiti nú meira upp til fjalla þar sem hann sé kominn í samkeppni við refinn um æti.

Jón telur mikilvægt að efla minkaveiðar og þurfi sveitarfélögin að koma á samstarfi um veiðarnar þar sem minkurinn virði ekki hreppamörk, heldur ferðist á milli. Sem dæmi tekur hann að í vetur hafi sést til ellefu minka í Svarfaðardal en dalurinn var laus við mink eftir mikið átak sem þar var gert fyrir um áratug. Í sjö ár hafi minkur ekki sést þar en hann hafi skotið upp kollinum á ný nú í vetur. Jón telur líklegast að þessir minkar hafi komið úr Skagafirði og ferðist yfir Heljardalsheiði. Þetta sýni að sveitarfélög verði að stilla saman strengi sína.

Viðtalið má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir