Mold og Hamfarapopp

Úlfur Úlfur. MYND AF NETINU
Úlfur Úlfur. MYND AF NETINU

Tónlistarmaðurinn Helgi Sæmundur er með mörg járn í eldinum þessa dagana. Þar á meðal er samstarfsverkefni hans og Emmsjé Gauta, sem virðist hafa hætt sér út af malbikinu og út í moldina (eða móa), því þeir kappar senda frá sér plötuna Mold á næstunni. Þrátt fyrir að vera ekki komin út er Mold engu að síður Plata vikunnar á Rás2 þessa vikuna. Þá kemur út nýtt lag á morgun, Hamfarapopp, með þeim æskuvinum, Helga Sæmundi og Arnari Frey, í Úlfur Úlfur en Salka Sól aðstoðar þá félaga í laginu.

Í umfjöllun rúv.is um Plötu vikunnar á Rás2 segir: „Platan ber höfundareinkenni beggja [Emmsjé Gauta og Helga Sæmundar] þó greinilega kveði við nýjan tón í samstarfinu eins og hlustendur hafa tekið eftir í lögunum Tossi og Heim sem hefur verið vel tekið af útvarpshlustendum og á streymisveitum.

Platan Mold inniheldur níu lög og texta sem eru flest eftir þá Gauta og Helga Sæmund en þeir fá til sín góða gesti við lagasmíði, hljóðfæraslátt og söng eins og venja er orðin í poppinu. Meðal þeirra sem reka inn nefið eru Arnar Freyr Frostason úr Úlfi Úlfi auk Flóna, Magnúsar Jóhanns Ragnarssonar, Þormóðs Eiríkssonar, Arnars Inga Ingasonar og Reynis Snæs Magnússonar.“

Á Facebook-síðu Helga Sæmundar kemur fram að hann gerir nú út frá Sauðárkróki og hefur að undanförnu verið að dútla við að koma sér upp stúdíói á hafnarsvæðinu, „...svo ég kæmi mér út á morgnana í staðinn fyrir að vinna á brókinni allann daginn.“ Feykir birtir fyrr en síðar viðtal við Helga Sæmund.

Hér er slóð á viðtal við félagana Helga og Gauta >

Fleiri fréttir