Myndaði mink við Sauðána

Sigurður Ingi Pálsson, áhugaljósmyndari á Sauðárkróki, var að mynda náttúruna, fugla og fleira á svæðinu í kringum tjörnina sem Sauðá rennur í  neðan Sjúkrahúshæðarinnar, nokkra tugi metra frá N1 Ábæ og Kaupfélaginu, þegar hann varð var við mink. Náði hann að mynda varginn sem var ekki minna forvitinn um ljósmyndarann sem beindi að honum myndavélinni.

 

„Fyrst sá ég skrýtna hreyfingu á vatninu eins og eitthvað hefði stungið sér til sunds,“ segir Sigurður Ingi, „Svo kemur hann aftur upp í kringum steinana og þá fyrst sé ég að þetta er minkur. Hann sér mig strax  enda er ég innan við 50 metra frá honum og reynir að fela sig bakvið og undir steinum sem eru þarna þar sem vatnið liðast undir göngubrúna. Honum tekst það nógu vel þannig að ég næ ekki góðri mynd af honum, en hann er alltaf að kíkja og virðist hafa jafn mikinn áhuga á mér og ég hafði á honum.

Á endanum gefst ég upp geng að brúnni til að sækja töskuna og þrífótinn sem ég var með og ætla að fara að rölta yfir á Ábæ, þar sem bíllinn minn var. Ég var ennþá með kveikt á myndavélinni þannig að ég ákvað að snúa mér við og sjá hvort ég myndi sjá hann. Þá sé ég að hann er kominn undir göngubrúna og er að horfa á eftir mér þar.“

Sigurður Ingi stoppar og  mundar vélina og nær þessari fínu mynd af minknum. Miðað við hversu gæfur og forvitinn minkurinn virtist vera þá telur Sigurður hann hafa sloppið úr einhverju búi nýlega. Hver örlög minksins verða er ómögulegt að segja en búið er að er að hafa samband við meindýraeyði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir