Myndir frá Mjúkísmóti

Á dögunum var haldið svokallað Mjúkísmót á Holtstjörn við Skörðugil í Seyluhreppi hinum forna. Fjallað hefur verið um mótið í Feyki en hér birtist myndasyrpa frá mótinu sem var hið skemmtilegasta.

„Upphafið að þessu Holtstjarnar-ísmóti var eitthvað á þá leið að við Einar brugðum okkur af bæ í nokkra daga í janúar 2003. Einar og Eyþór voru þá piparsveinar í föðurhúsum og eins og ungra manna er háttur þá var einhver fiðringur í þeim svo að dagsverkum loknum röltu þeir út á Ytra til Ingimars og Kollu. Í þeirri heimsókn kviknaði hugmyndin að því að halda ísmót á Tjörninni og grunnurinn var að þetta yrði einskona minningarmót um föður minn, Dúdda á Skörðugili,“ sagði Ásdís Sigurjónsdóttir í samtali við Feyki um upphafið að mótinu.

Í upphafi var ákveðið að þeir sem fengju að vera liðstjórar á mótinu væru þeir sem land ættu að Holtstjörn, en það eru Halldórsstaðir, Ytra-Skörðugil, Syðra-Skörðugil, Holtskot og Geldingaholt. Hver liðstjóra mætti fá einhverja fjóra til liðs við sig og þeir mættu vera hvaðan af landinu sem væri. Síðan var leitað til listamannsins Guðmundar Hermannsonar, þá kennara við Varmahlíðarskóla og bónda á Fjalli um að gera verðlaunagrip, svo kallað Dúddabein.

„Það er margs að minnast frá þessum mótum, eitt árið var til dæmis Þórólfur svo slæmur í bakinu að hann gat ekki setið í bílnum en lá aftur í og hlustaði á taktinn í hófaslögunum og gaf einkunn eftir því. Einu sinni man ég að Ingimar á Ytra var hundfúll eftir mótið og sagðist aldrei kom til með að vinna þetta mót ef hann væri með þessa tengdasyni sína í liðinu, en sem betur fer tók hann þá aftur í sátt,“ sagði Ásdís, aðspurð um skemmtilegar minningar frá fyrri mótum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir