Næturnar hlýrri í ágúst - Veðurspá Veðurklúbbsins á Dalbæ

Í gær, 4. ágúst, komu átta félagar Veðurklúbbsins á Dalbæ  til fundar eftir sumarfrí. Farið var yfir spágildi fyrir júnímánuð og voru menn nokkuð sáttir, eftir því sem fram kemur í skeyti klúbbsins. Þar kemur fram að þó ekki hafi verið gefin formlega út spá fyrir júlí voru menn sammála um að veðrið hafi verið eins og lá í loftinu að það yrði og fátt sem kom á óvart.

Tunglið sem er ríkjandi kviknaði 20. júlí í vestri kl 17:33 og ríkir til 19. ágúst en þá kviknar nýtt tungl í norðri kl 02:42. „Ágúst verður svipaður og júlí, þó heldur hlýrra á nóttunni en var í júlí og við vonumst til að ágúst gefi okkur nokkra góða daga þó ekki nema til þess rétt að hlýna á höndunum,“ segja veðurspámenn sem láta vísu eftir Sigurð Baldvinsson (1887) fylgja sumarkveðju Dalbæinga til lesenda. 

Spámaður er hann, það vil ég vona.
Veðrinu gerir hann þannig skil:
Annað hvort verður það áfram svona
ellegar þá hann breytir til

Og að vanda er ein veðurvísa sem minnir okkur á að senn hallar sumri.

Í ágúst slá menn engið
og börnin tína ber
Í september fer söngfugl
og sumardýrðin þver.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir