Námskeið í vitleysisgangi

Aðalbjörn Kristbjörn Ásbjörnsson mun nú á næstunni bjóða íbúðum á Norðurlandi vestra upp á námskeið í vitleysisgangi. Verða námskeiðin haldin beggja vegna Þverárfjalls ef næg þátttaka fæst.

Aðalbjörn hefur verið að þróa hugmyndina með sér undanfarin misseri og finnst nú kominn tími til að bjóða upp á námskeiðin fullsköpuð.

„Þessi námskeið eru fyrir fólk sem hefur ítrekað verið með vitleysisgang og eins líka fyrir þá sem eru byrjendur og hyggja á slíka hegðun í náinni framtíð,“ segir Aðalbjörn. „Það sem ég kenni þarna er hvernig fólk á að fremja vitleysisgang við hinar ýmsu aðstæður; hvort sem það er í búðinni, bankanum, í sundi, á bílastæði eða bara til heimilisbrúks,“ segir Aðalbjörn jafnframt og bætir við að það séu í raun engin takmörk fyrir því hvar fólk geti framið vitleysisgang. „Við horfum upp á það dags daglega að fólk framkvæmir allskonar hluti í vitleysisgangi en það eru svona ákveðin grunnatriði sem skortir og er þessu námskeiði ætlað að auðvelda fólki framkvæmd vitleysisgangs og setja kannski pínu klassa yfir þau,“ segir Aðalbjörn.

Gangi þessi námskeið vel er Aðalbjörn með í skoðun að bjóða upp á námskeið í asnaskap.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir