Nemendur Listaháskóla Íslands í heimsókn í Árskóla
Í vikunni sem leið fengu nemendur 10. bekkjar Árskóla góða heimsókn þegar nokkrir nemendur úr Listaháskóla Íslands komu þangað og buðu upp á leiksýningu. Um var að ræða frumsamið leikverk sem nemendur hafa unnið frá grunni án aðstoðar frá nokkrum fagaðila. Leikritið ber nafnið Samningurinn og er höfundur handrits Helgi Grímur Hermannsson. Leikstjóri þess er Jökull Þór Jakobsson, tónlist samdi Katrín Helga Ólafsdóttir og Assa Borg Þórðardóttir samdi dans. Þrír leikarar fara með hlutverk í verkinu, þau Rakel Ýr Stefánsdóttir, Jónas Alfreð Birgisson og Ragnar Pétur Jóhannsson. Leikritið fjallar um tvær ólíkar persónur, kryddsölumann og verkfræðing, sem hafa mismunandi sýn á lífið og tilveruna og árekstra sem verða milli ólíkra hagsmuna þeirra.
Að sögn Helga Gríms, höfundar verksins, er þetta fyrsta sýning þeirra utan höfuðborgarsvæðisins og um leið í fyrsta skipti sem hópurinn sýnir fyrir grunnskólanemendur. Aðspurður hvers vegna Skagafjörðurinn hafi orðið fyrir valinu segir Helgi það einfaldlega vera vegna þess að hann er ættaður héðan en faðir hans, Hermann Sæmundsson, er uppalinn á Sauðárkróki. Sagði hann þessa sýningu vera nokkurs konar prófstein á hvernig hún félli í kramið hjá þessum aldursflokki og ef vel tækist til kæmi vel til greina að fara víðar með verkið og jafnvel að sýna í fleiri skólum en framhaldið er óráðið að öðru leyti en því að hópurinn mun sýna á sviðslistahátíð í Budapest.
Að sýningu lokinni var boðið upp á tvær málstofur fyrir nemendur. Þar var annars vegar var fjallað um inntak og boðskap sýningarinnar og það hvort og þá hvað hægt væri að læra af henni. Hins vegar var rætt um það hvernig það sé að vera nemandi í Listaháskóla Íslands, í hverju námið felist og spurningunni um það hvers
vegna ungt fólk ætti að fara í listnám var velt upp. Ekki var annað að sjá en sýningin félli nemendum vel í geð og sköpuðust líflegar umræður í málstofunum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.