Niðurgreiðslur hækka um 20%
Félags- og tómstundanefnd Svf. Skagafjarðar hefur lagt fram drög að breyttum reglum um dagvistun barna á einkaheimilum. Breytingarnar fela m.a. í sér hækkun niðurgreiðslna um 20%.
Upphæð niðurgreiðslunnar fyrir börn foreldra sem eru giftir eða í sambúð var 244 kr. en verður nú 293 kr. fyrir hverja keypta klukkustund og fyrir börn foreldra sem eru einstæðir eða báðir í námi var upphæðin 307 kr. en verður nú 368 kr. fyrir hverja keypta klukkustund. Hámarksgreiðslur hækka samsvarandi um 20%.
Foreldrum sem ekki stendur til boða dagvistarpláss eða leikskólapláss geta sótt um foreldragreiðslur samsvarandi niðurgreiðslunum og er það nýtt.
Þá eru dagforeldrum tryggðar niðurgreiðslur sem svarar þremur börnum 3 X 64.922 kr. á mánuði í 11 mánuði á ári.