Norðvesturumdæmi öflugasta sauðfjársvæðið

Norðvesturkjördæmi er öflugasta sauðfjársvæðið. Úr réttum í Deildardal. Mynd:FE
Norðvesturkjördæmi er öflugasta sauðfjársvæðið. Úr réttum í Deildardal. Mynd:FE

Í nýjasta tölublaði Bændablaðsins, sem út kom í gær, kemur fram að sauðfjáreign landsmanna hefur ekki verið minni en nú undanfarin 40 ár, samkvæmt hagtölum landbúnaðarins. Hins vegar hefur nautgripum fjölgað um 35% frá árinu 1980. Sé sauðfjáreign skoðuð eftir landshlutum kemur fram að Norðvesturumdæmi er öflugasta sauðfjársvæðið en nautgripir eru flestir í Suðurumdæmi.

Um síðustu áramót taldist ásett sauðfé í landinu vera 415.949 fjár en þar af voru 1.471 geit. Í Norðvesturumdæmi, þ.e. Norðurlandi vestra og Vestfjörðum, voru 112.085 vetrarfóðraðar kindur. Vesturumdæmi er í öðru sæti með 102.175 fjár og Norðausturumdæmi í þriðja sæti með 68.789 kindur. Áþekkur fjöldi er í Austurumdæmi sem er í fjórða sæti með 65.753 og í Suðurkjördæmi þar sem eru 64.931 kind. Suðvesturumdæmi rekur svo lestina með 2.216 kindur.

Nautgripir í landinu voru 80.872 í árslok 2019, þar af voru 26.217 mjólkurkýr og 2.891 holdakýr. Í nautgriparæktinni er Suðurumdæmi langöflugasta hérað landsins með 30.712 gripi árið 2019. Í öðru sæti var Norðausturumdæmi með 18.025 gripi og Norðvesturumdæmi í þriðja sæti með 14.138 gripi.

Sjá nánar í Bændablaðinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir