Norska leiðin, stóra leiðréttingin | Guðmundur Haukur Jakobsson skrifar
Nú er alþingi undirlagt af umræðum um veiðigjöld, ríkisstjórnin ætlar að leiðrétta veiðigjöldin með norskri nálgun og er það athyglivert og skiptar skoðanir eins og glöggt má sjá þessa dagana. Þessa stóru leiðréttingu er verið að keyra áfram svo hún nái fram að ganga sem allra fyrst, fyrir ríkiskassann og þjóðina að sjálfsögðu.
En mun þessi ríkisstjórn verða samkvæm sjálfri sér á næstu misserum ? Það eru nefnilega fleiri leiðréttingar í farvatninu, fleiri norskar leiðir, en það liggur ekki eins mikið á þeim þar sem þær breyta á annan hátt fyrir ríkiskassann og sveitarfélögin á Íslandi. Þessi breyting lítur að afnámi undanþágu fasteignamatsskyldu mannvirkja til orkuframleiðslu. Sú breyting mun þýða að um einhvern tíma munu arðgreiðslur Landsvirkjunar til ríkisins minnka svo einhverju nemi , það er ó hentugt.
Fasteignaskattur er einn af þremur tekjustofnum sveitarfélaga ásamt útsvari og greiðslum úr Jöfnunarsjóði. Við þessa undanþágu verða sveitarfélög af miklum tekjum. Samkvæmt skýrslunni Skattar á orkufyrirtæki sem unnin var af Háskólanum á Bifröst og kom út í mars 2023 greiddu orkufyrirtæki um 7,5 milljarða í fasteignaskatt og tekjuskatt að meðaltali á árunum 2018 til 2021. Af þeim tekjum fékk Ríkissjóður rétt tæp 79% og sveitarfélögin um 21%. Árið 2022 voru þessi hlutföll 13% sveitarfélög (1,83 ma. kr. í fasteignaskatt) og 87% ríkissjóður (12,2 ma. kr. í tekjuskatt). Í skýrslunni kom jafnframt fram, að ef norskum reglum yrði beitt á íslensk fyrirtæki myndi skattbyrði þeirra þrefaldast. Þar af myndi ríkissjóður fá 36% meiri skatttekjur, en sveitarfélög ríflega 800% meira, eða um 13,5 ma ISK á ári. Fjallað hefur verið um málið í þremur starfshópum og var niðurstaða fjármálaráðuneytisins eftir vinnu þriðja starfshópsins að afnema skyldi undanþágu á fasteignamatsskyldu strax og sérstakt skattþrep lögfest vegna virkjunarmannvirkja.
Nú er staðan sú að beiðið er eftir áformaskjali næstu leiðréttingar, átti fyrst að koma í tíð síðustu ríkisstjórnar og svo núna fyrir páska, hvernig mun það líta út ? Verður búinn til nýr skattstofn sem mun hygla vindmyllu byggjendum um allt land og ívilna þeim umfram öðrum fyrirtækjum í landinu ? Hversu dýrkeypt verður það fyrir sveitarfélögin í landinu? Verður nýji Landspítalinn í Reykjavík settur í sama skattþrep, hann kostar bara rúma 200 milljarða.
En málið er að þessi leiðrétting mun hafa áhrif á væntanlega öll sveitarfélög, það munu skila sér miklir fjármunir inn á sveitarstjórnarstigið, ekki veitir af. Það vantar mikla fjármuni inn í sveitarfélögin víða og hér er um að ræða leiðréttingu sem mun færa aukna fjármuni frá arðgreiðslum í að borga lögbundna skatta þar sem nærsamfélög allra virkjana munu njóta réttmætra tekna sem og sveitarfélög um allt land.
Undirritaður treystir því að ríkisstjórnin ætli sér ekki að mismuna fyrirtækjum á Íslandi en fari svo að norsku fordæmi verði fylgt þá þýðir það nýr skattstofn með 0,7 % álagningarhlutfalli á orkumannvirki. Ef það er ætlunin að fara ennþá neðar en það þá er ljóst að það á að hygla ábatasömustu og öruggustu atvinnugrein á íslandi umfram önnur fyrirtæki, hverjir eru það sem eiga þessi vindmyllu verkefni, eru það kannski norðmenn sem þurfa ekki norska leið eins og íslenskur sjávarútvegur.
Guðmundur Haukur Jakobsson
Höfundur er oddviti í orkusveitarfélaginu Húnabyggð