Ný heimasíða ræktunarbúsins Víðidalstungu II

Ný heimasíða ræktunarbúsins Víðidalstungu II fór nýlega á loftið. Á www.tunguhestar.de er hægt að fá upplýsingar um hrossarækt þeirra Ingvars Jóns Jóhannssonar og Árborgar Ragnarsdóttur.

Hrossaræktin byggist á hryssunum Elddísi frá Víðidalstungu II og Flugu frá Lækjarhvammi (úr ræktun Árna Hraundals, afa Árborgar) og afkvæmum þeirra. Þær eru ættmæður flestra hrossa sem Ingvar og Árborg eiga í dag. Hross búsins eru framfalleg, mjúkgeng og með trausta lund. Einna þekktastur úr ræktuninni er Frami frá Víðidalstungu II.

Í gegnum heimasíðuna má nálgast upplýsingar um ýmsa fræga stóðhesta sem hafa verið notaðir – næstum allir eru með eigin tengil/síðu þar sem hægt er að nálgast  upplýsingarnar um þá.

Myndasafn er á síðunni sem sýnir skemmtilegar ljósmyndir og reglulega verður bætt við nýjum myndum. Síðast en ekki síst eru hross til sölu – akkurat núna eru ung og efnileg hross, tamin og ótamin á sölusíðunni.

Árborg og Ingvar hófu  búskap í Víðidalstungu II 1996. Hestamennskan hefur alla tíð verið þeirra áhugamál. Svo er Árborg auk þess lærður hestanuddari, en hún stundaði nám í Svíþjóð. Í Morgunblaðinu birtist grein um störf hennar í fyrra.

Heimasíðan hefur endinguna “.de” eða www.tunguhestar.de, því síðan er bæði á íslensku og þýsku. Höfundur heimasíðunnar er Caroline Mende, sem býr í Þýskalandi og var markmið hennar að heimabæ Miðils, hestsins hennar, væri hægt að heimsækja á netinu. Caroline á þrjá íslenska hesta sem þykir almennt mikið í Þýskalandi. Hún keypti Miðil 2006 þá 3 v. gamlan og er mjög ánægð með hann. Þá byrjaði vinátta þeirra Ingvars, Árborgar og Carolinu, sem er stór Íslandsvinur síðar hún var vinnukona á Húsatóftum á Skeiðum 1989.

Fleiri fréttir