Nýjar sýningar opna í Áshúsi í Glaumbæ

Þóra Rósa, verslunarkona á Sauðárkróki, ásamt þröstunum tveimur sem hún „fóstraði“.  Myndin var svart-hvít, en ljósmyndarinn Stefán Pedersen, eða Stebbi Ped, litaði hana.  MYNDIR AÐSENDAR
Þóra Rósa, verslunarkona á Sauðárkróki, ásamt þröstunum tveimur sem hún „fóstraði“. Myndin var svart-hvít, en ljósmyndarinn Stefán Pedersen, eða Stebbi Ped, litaði hana. MYNDIR AÐSENDAR

Nú er sumarvertíðin hafin hjá Byggðasafni Skagfirðinga. Sumarstarfsfólk er að tínast inn til starfa og fjör að færast yfir safnsvæðið. Árstíðaskiptunum fylgja alltaf ný verkefni, sumarið er að sumu leyti uppskeruhátíð eftir vetrarverkin hjá Byggðasafni Skagfirðinga, en veturinn hefur að snúist um yfirferð sýninga á safnsvæðinu.

Starfsfólk skoðaði sýningarnar með gagnrýnisgleraugum, ræddi framtíðaráform og spurningar eins og „á þessi gripur heima hér?“ og „hvaða sögu á þetta að segja?“ voru tíðræddar. Vinnan leiddi af sér bæði fjörugar samræður um framsetningu og samsetningu gripa á sýningum, sem og breytingar. Á sama tíma var unnið úr ábendingum Nathalie Jacqueminet, forverði. Hún hefur haldið námskeið fyrir starfsfólk undanfarin ár og gefið góðar ábendingar um forvörslu, umgang, umbúnað og meðferð gripa á safninu.

Vetrarstarfið leiddi af sér þrjár nýjar sýningar í Áshúsi sem formlega verða opnaðar þann 14. júní næstkomandi milli kl. 16-18.

Í norðurherbergi opnar sýning um Hjálmar Jónsson frá Bólu (1796-1875), betur þekktur sem Bólu-Hjálmar. Honum var margt til lista lagt, hann var listaskrifari, þjóðfræðasafnari, góður kvæðamaður og þótti hafa eftirtektarverða frásagnargáfu og var því eftirsóttur til ræðuhalda á mannamótum. Hann hafði afburða vald á íslenskri tungu, sem hann beitti óspart og aflaði sér með því bæði vini og andstæðinga. Á sýningunni eru bæði útskornir gripir eftir hann, sem og úrval ljóða sem ýmist tengjast gripunum á einhvern hátt eða hafa skírskotun í lífshlaup hans og tilvist. Við tilefnið á opnun ætla kvæðafólkið, Hilma Eiðsdóttir Bakken og Níels Ómarsson, að fara með kveðskap eftir skáldið.

Vestara súðarherbergi hýsir nú sýningarröðina Hver var konan? en þar verða sagðar sögur af einstökum skagfirskum konum frá 20. öld. Sýningaröðinni er ætlað að fjalla um líf og störf kvenna sem settu svip á samtíð sína, oft þó án þess að marka stór spor í ritaða menningarsögu svæðisins. Margar þeirra skildu eftir sig handverk sem safnið varðveitir. Fyrsta sýningin í röðinni er um Þóru Rósu Jóhannsdóttur (1903-1990) verslunarkonu, en hún rak verslun á Sauðárkróki um áratuga skeið. Til sýnis eru hlutir úr hennar eigu og handverk sem ber vott um hvoru tveggja í senn, listfengi og nýtni.

Þriðja nýjungin á Áshúslofti er sýningin Vélvæðing handverks, sem rekur í stuttu máli sögu ullarvinnslu, spuna og nokkurra aðferða textílgerðar á Íslandi frá landnámi og fram á 20. öld. Fram að iðnbyltingu breyttist textílvinnsla afar lítið, framleiðsla fatnaðar fór alfarið fram innan veggja heimilisins. Á 19. öld fóru að berast til landsins ýmis verkfæri sem gjörbreyttu framleiðsluháttum. Spuna-, prjóna- og saumavélar urðu algengari á heimilum sem gerðu textílvinnslu hraðvirkari, en slíkar vélar voru notaðar á heimilum fram á 20. öld þegar framleiðslan færðist í síauknum mæli frá heimilum og inn í verksmiðjur.

Í sumar er opið í Glaumbæ alla daga milli kl. 10-18, kaffistofan í Áshúsi er opin alla daga frá kl. 10-17 og Víðimýrarkirkja er opin frá kl. 12- 18 alla daga nema mánudaga. Við minnum Skagfirðinga á ársmiðana, en þá er aðgangur greiddur einu sinni en fólk getur heimsótt safnið og kaffistofuna eins oft og því lystir.

Inga Katrín D. Magnúsdóttir 

Saumavél Herdísar Bjarnadóttur (1837-1922) frá Reykjum í Hjaltadal.

Þilkista (BSk-48) útskorin af Bólu-Hjálmari

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir