Nýr framleiðslubúnaður hjá Mjólkursamlagi KS

Sérfræðingar ALMAC í miðju ásamt starfsmönnum MKS. Aðsend mynd.
Sérfræðingar ALMAC í miðju ásamt starfsmönnum MKS. Aðsend mynd.

Undanfarnar vikur hefur staðið yfir uppsetning á nýjum tækjabúnaði til framleiðslu á ferskum mozzarella í Mjólkursamlagi KS á Sauðárkróki. Samlagið hóf framleiðslu á þessum osti fyrir tæplega 20 árum og var því komin tími á endurnýjun tækja. Að sögn Jóns Þórs Jósepssonar, framleiðslustjóra MKS, kemur nýi búnaðurinn frá Ítalska fyrirtækinu ALMAC og voru aðilar frá þeim að prufukeyra búnaðinn og kenna starfsmönnum MKS handbrögðin í síðustu viku.

„Þarna er um að ræða nýja tækni við framleiðsluna sem á að hafa í för með sér betri gæði afurða og breiðara vöruúrvali. Fyrir unnendur á ferskum mozzarella eru því spennandi tímar framundan, en sem dæmi um nýjungar má nefna Burrata sem eru fylltar mozzarellukúlur með rjómaostafyllingu eða stracciatella eins og það heitir á ítölsku. Þetta er sérlega skemmtilegur valkostur fyrir þá sem vilja m.a. kóróna pizzumáltíðina eða sem meðlæti með salatinu,“ segir Jón Þór.

Til að byrja með verður hægt að nálgast Burrata í Skagfirðingabúð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir